145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

áhrif kjöt- og mjólkurframleiðslu á loftslagsbreytingar.

[16:11]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Við áttum í gær góða og gagnlega umræðu um loftslagsmál og ekki síst um Parísarsamkomulagið og vil ég þakka fyrir hana. Eins og við skynjuðum þar og áfram hafa loftslagsmál mjög víðtæka tengingu og snerta allar atvinnugreinar og eru í raun grundvöllur í öllum rekstri sem þarf að fara að taka tillit til. Mér finnst ánægjuleg sú vakning sem hefur orðið í samfélaginu um að finna raunhæfar lausnir til þess að minnka losun og þar er landbúnaðargeirinn ekki undanskilinn. Það er spurt um stefnu en eins og fram kemur í sóknaráætlun um loftslagsmál erum við með vegvísi í undirbúningi með samvinnu stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands til að útfæra minnkun í losun frá landbúnaði. Við þurfum að bæta upplýsingar og tölfræði til að fá betri sýn á hvar losunin er svo stefnan og verkefnin verði markviss, rétt eins og hv. þingmaður gat um. Vissulega er bæði mjólk og kjöt mjög nauðsynlegt og ekki hvað síst er það hin mikla uppspretta prótíns sem við fáum úr þeim afurðum. Ég tel að fram undan geti verið mjög áhugaverð tækifæri fyrir greinina og umhverfið til þess að skoða þetta og hægt sé að nýta þær upplýsingar vel. Bændur gegna vitaskuld mjög miklu hlutverki varðandi endurheimt landgæða og hafa gert og þar er stefnt að aukinni styrkingu og þá, eins og oft hefur komið fram, hvað varðar skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis, vitum við að öll sóun hækkar kolefnisspor. Það er líka rétt að nefna það sem við hv. þingmaður erum nokkuð sammála um, átak gegn matarsóun. Ég verð að segja að ég er mjög hlynnt árstíðabundnu mataræði.

Varðandi spurningu um umhverfisáhrif kjötframleiðslu á Íslandi þá höfum við nokkuð góðar tölur um losun almennt frá landbúnaði en ekki hvernig hlutfallið skiptist á milli búgreina eða neysluvara. Sanngjarnt er að gera almenna kröfu um minnkun losunar í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar okkar og skynsamlegt að ráðast fyrst í þær aðgerðir sem eru hagkvæmar en skila jafnframt öðrum ávinningi. Mig langar einnig að nefna í því samhengi nokkuð sem margir hafa bent á víða um heim og það er sá ávinningur að neyta matar úr nærumhverfi í stað þess að flytja hann langar leiðir því að gríðarlega mikil orka fer í flutninga sem lágmarka má eins og kostur er og okkur ber að gera í loftslagsmálunum. Það þarf einnig að koma til betri orkustjórnun til að minnka sóun.

Þingmaðurinn sem er málshefjandi talaði einmitt um fóður fyrir kýr og ég verð að segja að ég held að innlend framleiðsla byggist fyrst og fremst þar á grasi og heyi og er þarna með mun minna kolefnisspor en víða annars staðar þar sem fóður fyrir kýr byggist á korni og miklu vatni, eins og þingmaðurinn kom inn á. Það er miklu meira álag á vistkerfið og við hljótum að taka þetta út frá heiminum í heild sinni. Við viljum samt ekki stoppa hið mikla færiband sem heimsviðskiptin vissulega eru en ég tel samt mjög rétt að við hugum alltaf að loftslagssjónarmiðum þótt okkur finnist og við vitum að hollur er heimafenginn baggi. Við viljum njóta ávaxta og þingmaðurinn kom síðast í gær í þingræðum inn á ananasinn sem við getum ekki ræktað hér en á hinn bóginn viljum við líka flytja út vörur eins og íslenskt sjávarfang, skyr og fleiri gæðavörur, þannig að allt er þetta ein keðja.

Varðandi spurninguna um hvort stjórnvöld ættu ekki að upplýsa neytendur um umhverfisáhrif kjötneyslu getur mat á loftslagsáhrifum neysluvara verið flókið og ólíkt milli landa og jafnvel býla, eins og ég kom inn á. Þetta er misjafnt á milli landa og það má vel vera að aukin tækni í framtíðinni geri okkur kleift að halda enn betur utan um kolefnisspor allra vara og ég býst jafnvel við að vörur í framtíðinni þurfi að vera merktar með kolefnisspori, sama hvaða vara það er. Það skiptir máli að tryggja að umhverfisáhrif framleiðslu hér á landi, hvort sem það er á kjöti, mjólk eða öðrum vörum, séu eins lítil og kostur er. Við ætlum að minnka kolefnisfótspor íslensks landbúnaðar og annarra atvinnugreina eins og fram hefur komið og við erum að fara í samvinnu við bændur og aðra til að draga úr losun og byggja upp loftslagsvænar (Forseti hringir.) atvinnugreinar og samfélag. Ég vil vinna að því á jákvæðan hátt og ganga óhikað til verka.