145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

áhrif kjöt- og mjólkurframleiðslu á loftslagsbreytingar.

[16:21]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu og það ágæta upplegg sem hv. þingmaður Brynhildur Pétursdóttir lagði hér fram í þessa umræðu um áhrif kjötframleiðslu og kjötneyslu á loftslagsmál. Ég held að það sé verðugt að velta því fyrir sér. Ég tek undir með hv. þingmanni að það vakti líka athygli mína að á stóru loftslagsráðstefnunni var landbúnaður mikið til settur til hliðar og ég tók líka eftir því að forustumenn bænda, í það minnsta í Skandinavíu, höfðu orð á þessu. Landbúnaður eins og allar aðrar atvinnugreinar hlýtur að vera hluti af því verkefni sem við erum að fást við. Landbúnaður spilar mjög stórt hlutverk. Ég hef í umræðu um nýja búvörusamninga undanfarið ítrekað sagt það og bent á þetta og ég sé fyrir mér að t.d. ættu nýir búvörusamningar, nýir fjárfestingarsamningar í landbúnaði, m.a. að svara ákallinu um loftslagsmál og hlutverk landbúnaðarins í loftslagsmálum.

Við notum fyrst og fremst alþjóðlega staðla þegar við mælum losun frá landbúnaði á Íslandi. Við eigum mjög lítið af rannsóknum um losun í íslenskum landbúnaði. Þessir staðlar og þær reikningsaðferðir sem við höfum notað á undanförnum árum hafa sagt okkur að um 4,2% af allri losun atvinnuveganna komi frá landbúnaði, það er fyrir utan landnotkunina.

Við eigum samt nokkrar vísbendingar. Við eigum vísbendingar um að það sé minni losun frá íslenskum kúm vegna þess hvernig við fóðrum íslenskar kýr og stundum búvöruframleiðslu á Íslandi. Mjög litlar tilraunir sem gerðar hafa verið norður á tilraunabúinu á Möðruvöllum í Eyjafirði benda til þess. Okkur vantar miklu stærri talnagrunn til þess að byggja á.