145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

áhrif kjöt- og mjólkurframleiðslu á loftslagsbreytingar.

[16:28]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu og tel hana mikilvæga. Matvælaframleiðsla hefur óhjákvæmilega í för með sér umhverfisáhrif. Mikilvægt er að við leitum allra leiða til að vinna gegn þessum áhrifum, öflum góðrar þekkingar á heildaráhrifum á umhverfið alveg frá fyrstu stigum framleiðslu þar til matvæla hefur verið neytt. Á sama hátt er mikilvægt að forðast allar alhæfingar um að ein gerð matvöru valdi meiri loftslagsáhrifum en önnur, málið er svo miklu flóknara en það. Áhrifin af framleiðslu sömu matvöru geta verið mjög mismunandi eftir því hvar á hnettinum og við hvaða aðstæður varan er framleidd eða hvar hennar er neytt. Við þurfum að horfa á alla kolefnishringrásina og önnur umhverfisáhrif í ljósi hnattstöðu og vistkerfis á hverjum stað.

Við þurfum að horfa á hvaða loftslagsáhrif fylgja landnýtingunni. Byggist framleiðslan á því að skógur var ruddur eða land þurrkað? Á sér stað losun eða binding samfara framleiðslunni? Hvaða loftslagsáhrif fylgja aðföngum til framleiðslunnar? Er notaður áburður? Þarf að flytja hann um langan veg? Er notað aðflutt fóður? Hvaða loftslagsáhrif fylgja þeirri framleiðslu og flutningi? Þarf mikla eldsneytisnotkun? Fara aðföng til spillis? Svo þurfum við að horfa á loftslagsáhrif við vinnslu matvörunnar og hvort flutningur á sér stað.

Nýlega hitti ég bændur sem hafa verið að velta fyrir sér hvaða leiðir íslenskir bændur hafa til að jafna sinn kolefnisbúskap. Það finnst mér frábært. Bændur hafa ýmsar leiðir sem þeir hafa getað beitt, en jafnframt er mikilvægt að afla frekari þekkingar um loftslagsáhrif einstakra greina íslensks landbúnaðar.

Mín sýn er sú að hér á landi ættum við neytendur að byrja á því að huga að því að kaupa matvöru sem framleidd er og unnin sem næst okkur. Samhliða þarf öll stýring eða hvatar til atvinnugreinanna, jafnt landbúnaðar og (Forseti hringir.) sjávarútvegs, að hvetja til þess að dregið sé úr umhverfisáhrifum með nýjum lausnum.