145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

áhrif kjöt- og mjólkurframleiðslu á loftslagsbreytingar.

[16:35]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Í seinni ræðu minni í þessari ágætu umræðu vil ég taka upp þráðinn þar sem ég lagði hann niður áðan þegar ég talaði um að ákveðnar vísbendingar væru um minni losun vegna þess hvernig við fóðrum búfé okkar. Um helmingur allrar losunar í landbúnaði er vegna fóðrunar eða gerjunar í maga jórturdýra; hinn helmingurinn er, eða því sem næst, vegna gerjunar í hauggeymslum. Það ætti tæknilega séð að vera mjög einfalt að ráða við þessa tvo þætti, en til þess þyrftum við að vita meira og hafa, eins og ég sagði áðan, sterkari talnagrunn til að vinna eftir. Það vinnur líka gegn þessum neikvæðu áhrifum í búskap, þ.e. hinum daglega búskap, hvernig við yrkjum jörðina. Það eru vísbendingar og upplýsingar um það hvernig mismunandi plöntutegundir í gróffóðurframleiðslu binda kolefni.

Ég kýs í þessari umræðu að halda mig við íslenskan búskap og hvaða möguleika og tækifæri er hægt að hafa á hann til að hafa áhrif á þessi mikilvægu mál. Samanlagt getum við örugglega gert kjötneysluna, sem hv. málshefjandi nefndi, miklu jákvæðari og skoðað kjötneyslu og kjötframleiðslu á Íslandi með þeim gleraugum sem málshefjandi lagði til. Þar til viðbótar koma ýmis aðföng til landbúnaðar. Ég hef til dæmis tekið eftir því að þeir sem selja íslenskum bændum áburð eru þegar farnir að auglýsa í áburðarsöluauglýsingum sínum kolefnisspor sem hafa myndast við framleiðslu á áburðinum. Þegar maður ber það saman á milli tegunda er gríðarlegur mismunur þar á. En við megum aldrei ljúka þessari umræðu án þess að minnast á alla stóru mengunarvaldana í þessu samhengi, sem liggja m.a. í landnotkun okkar. Líklega er mesta (Forseti hringir.) framræsla á Íslandi í Vatnsmýri í Reykjavík, sem hefur (Forseti hringir.) einhver mestu áhrif á loftslagsmál í þessu tilliti nú um stundir.