145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

listamannalaun.

[17:05]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil nú fyrst fagna því að hæstv. ráðherrann var afdráttarlaus í þeirri skoðun sinni að honum dytti ekki í hug að leggja af listamannalaun. Auðvitað þarf ekki að fagna því, ég hélt að það lægi í augum uppi. En ég er hins vegar ekki sammála ráðherranum í því að eðlilegt sé að þetta sé rætt í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur í þjóðfélaginu, vegna þess að þetta er árleg umræða sem gýs upp í einhverri taugaveiklun. Ég segi bara að mér finnst hún algerlega ótrúleg. Að fólk láti sér detta það í hug að það sé ekki nauðsynlegt fyrir ríkið, fyrir okkur sem njótum listar í þessu landi, að styrkja einstaklingsframtakið í þeirri listsköpun sem hér er. Listamenn eru fólk sem stendur eitt og óstutt og skrifar bækur, spilar músík, semur músík, málar myndir. Þetta fólk hefur engan stuðning, enga stofnun, enga skrifstofu til að fara á. Þetta er stuðningur okkar, fólksins í landinu, þjóðarinnar, til þess að við megum njóta þessarar listar. Það er nú ekki mikið sem verið er að greiða þessu fólki á mánuði; 340 þús. kr. í verktakalaun. Það verða eitthvað um 245 þús. kr. Sumir fá kannski þrjá mánuði.

Virðulegi forseti. Ég segi það alveg eins og er, ég skil ekki þessa umræðu. En fagna því að ráðherrann í landinu og okkur hér, meiri hlutanum á þessi þingi, held ég, finnst þetta fáránleg umræða. Þá er ég ekki búin að koma að því sem er virkilega mikilvægt; menningin er mikill hagvaxtarsproti hér. (Forseti hringir.) Ég held að hv. þingmaður ætti að lesa bækur Ágústs Einarssonar, fyrrverandi prófessors, einmitt um hagræn áhrif ritlistar, kvikmyndalistar og tónlistar í landinu.