145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

listamannalaun.

[17:15]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka umræðuna þó að hv. þm. Róbert Marshall hafi náttúrlega ekkert erindi átt í hana. Hann fór að tala um hafnarframkvæmdir í Grindavík eða á landsbyggðinni þegar við ætluðum að tala um menningu og listir.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns eiga listamannalaun að mínu mati að tryggja stöðu íslenskrar tungu, tryggja nýliðun, skapa aðstöðu fyrir þá sem vinna sér veg og virðingu á listabrautinni og vera undirstaða í siðuðu samfélagi. Það er það sem ég sagði. Ég gagnrýndi fyrst og fremst úthlutunarreglurnar og ég er ánægður með að flestallir þingmenn sem hér tóku til máls tóku undir það með mér að við þurfum að skoða þær úthlutunarreglur sem eru í gildi.

Það er mikilvægt að við slökkvum ekki á tónlistinni og slökkvum ekki ljósin. Það er enginn að tala um það. Við erum að tala um að við þurfum að skapa frið um listina og til þess þurfum við að ræða málin. Við þurfum að hafa þrek til að tala um þessi mál þó að þau komi upp reglulega sem er vegna þess að í landinu ríkir óánægja með að ekki skuli vera gagnsæi í verkefnunum. Það er ekki gagnsæi í umsóknarferlinu og ekki í úthlutunum. Það er það sem við erum að biðja um að verði breytt.

Mér sýnist að flestir þingmenn, ef ég undanskil hv. þm. Róbert Marshall, vilji skoða hvernig við gerum það. Róbert Marshall getur auðvitað haldið áfram að skoða hafnarframkvæmdirnar í Grindavík en við ætlum að reyna að feta þá leið að styrkja listina með því að gera úthlutunarferlið gagnsærra og skapa umgjörð sem er eðlileg í þessum mikilvæga málaflokki eins og hér hefur komið fram. Það skiptir miklu máli fyrir alla þjóðina.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma í þessa umræðu og fyrir hans góðu svör. Spurningar mínar voru ekkert allar endilega byggðar á einhverjum hugmyndum mínum heldur var ég fyrst og fremst að varpa þeim fram til að fá umræðu um þær. Mér fannst mikilvægt hvernig hann svaraði þeim og ég þakka öllum þingmönnum sem tóku til máls.