145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[17:40]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sé það að hv. þingmaður er mér sammála um að þetta séu furðuleg vinnubrögð.

Eitt af því sem var einnig rætt talsvert í velferðarnefnd voru áhrifin sem þetta getur haft á börn og það er annað sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni. Mig langar þess vegna að dýpka það og biðja hv. þingmann að svara því hvort það hafi ekki einmitt verið sérstaklega mikilvægt vegna þess að í frumvarpinu er tiltekið að það eigi ekki að skerða greiðslur sem eru sérstaklega ætlaðar vegna barna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að það sé í rauninni hægt eða hvort að þetta sé í rauninni framkvæmanlegt? Er hægt að skerða fjárhagsaðstoð til foreldra án þess að það komi niður á börnunum með því að tiltaka sérstaklega einhverjar greiðslur sem varða börn, að þær megi ekki skerða, af því að börnin eru jú partur af heimilunum? Og hvort það hefði ekki sérstaklega þurft að skoða þennan viðkvæma hóp.

Börn foreldra sem eru á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna búa ekki við rúman fjárhag á heimilinu. Við erum nýbúin að fá skýrslu frá UNICEF á Íslandi þar sem var farið yfir skort barna. Hefði ekki þurft og þarf ekki núna í kjölfarið að leggjast í virkilega greiningu á því hvaða áhrif þetta frumvarp, ef það tæki gildi, hefði á börn og skoða það sérstaklega í ljósi þeirra nýju upplýsinga sem við höfum um skort barna á Íslandi?