145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[17:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég svara þeirri spurningu játandi. Það þarf svo sannarlega að greina áhrif þessa á börn.

Mér sýnist á þeim tölum sem ég tók frá Hagstofunni að á árinu 2014, þetta eru auðvitað gamlar upplýsingar, fólki hefur fækkað, hafi 7.700 manns fengið fjárhagsaðstoð einhverju sinni yfir árið. Þar af voru 2.500 með börn á framfæri.

Hvað kemur í ljós í nýrri skýrslu UNICEF um skort barna á Íslandi? Að börn foreldra sem eru á leigumarkaði eru líklegri en önnur börn til þess að búa við skort og börn fólks sem er í innan við 50% starfshlutfalli.

Ég held að þegar við horfum yfir þessar tölur á blaði og sjáum að þarna er fjöldi barna að baki, þau börn sem búa við verulegan skort á Íslandi eru talin um 1.600, þá hljótum við að velta því fyrir okkur og ekki bara að velta því fyrir okkur heldur ber okkur skylda til þegar við skoðum þennan málaflokk að horfa sérstaklega til barnanna, því að auðvitað hlýtur hátt hlutfall þeirra barna sem búa við skort að geta verið í þessum hópi.

Hún er með ólíkindum hræsnin í umræðunni um skort og fátækt. Við erum tilbúin til þess að tala eins og við ætlum að (Forseti hringir.) gera eitthvað í því en svo er haldið áfram með sömu vinnubrögðin og ekki horft til hagsmuna barna í málum eins og þessum sem varða lágmarksöryggisnet til framfærslu á Íslandi.