145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[17:52]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum nú aftur frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, um skilyrði fjárhagsaðstoðar. Ég verð að segja að mér fannst dapurlegt að sjá að þetta mál ætti að koma aftur á dagskrá. Eins og ég ætla að koma betur að síðar í ræðu minni finnst mér jafnvel enn dapurlegra að málið sé aftur komið á dagskrá með þó ekki greinarbetri upplýsingum en voru í fyrra. Hart var tekist á um málið í 1. umr. á síðasta þingi. Það sem þar kom í ljós var í raun að allir eru sammála um að mikilvægt sé að stuðla að virkni fólks í samfélaginu og það gildir vitaskuld líka um viðtakendur fjárhagsaðstoðar sveitarfélaganna. Ég er ekki í nokkrum vafa um að allir séu sammála um mikilvægi þeirra til virkni og sammála um að auðvitað eigi með ráð og dáð að aðstoða fólk til að fá vinnu og verða virkir þátttakendur á atvinnumarkaði sem geta séð um sig og sína sjálfir. En okkur greinir hins vegar á um leiðirnar og hvaða aðferðir eigi að nota til að ná markmiðinu um virkni fólks.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé ekki leiðin. Leiðin til að stuðla að virkni fólks sé ekki að setja þannig skilyrði fyrir virkni að ef þeim er ekki uppfyllt þá megi sveitarfélög skerða fjárhagsaðstoðina sem þau veita.

Fram kemur í fylgigögnum með frumvarpinu, þar sem fjallað er meðal annars um samantekt á niðurstöðum, að mat velferðarráðuneytisins sé að verði frumvarpið lögfest þá muni það hafa jákvæð áhrif á fjárhag sveitarfélaganna. Það hlýtur að benda til þess að sveitarfélögin telji sig með þessu frumvarpi geta sparað peninga þegar kemur að því að greiða fjárhagsaðstoð.

Það sem mér finnst hins vegar vanta og hef aðeins rætt um í andsvörum er að ekki skuli vera reynt að leggja mat á áhrifin sem frumvarpið, verði það samþykkt, hefur á þiggjendur fjárhagsaðstoðar. Fram kemur í fylgigögnum að enda þótt mörg sveitarfélög hafi núna í reglum sínum einhver ákvæði um skerðingar þá liggja til að mynda ekki fyrir gögn um hversu algengt er að fjárhagsaðstoðin falli niður að hluta eða í heild. Sök sér þó í fyrra skiptið þegar frumvarpið var lagt fram í fyrra að þetta hafi vantað, þó svo að ég telji það reyndar hafa verið gallað í fyrra, en þá finnst mér eiginlega enn verra að núna, þegar frumvarpið er lagt fram aftur, þá sé ekki heldur lagt mat á það og ekki búið að kalla eftir þeim upplýsingum frá sveitarfélögum og kortleggja með einhverjum hætti hópinn betur sem hefur verið beittur skerðingum og skilyrðingum á fjárhagsaðstoð.

Þegar málið var tekið úr hv. velferðarnefnd á síðasta þingi lét 1. minni hluti bóka eftirfarandi. Mig langar að lesa bókunina upp en þar segir, með leyfi forseta:

„Við störf nefndarinnar hefur glögglega komið í ljós að mörgum áleitnum spurningum er varða áhrif skilyrðinga fjárhagsaðstoðar á þá sem fyrir þeim verða er ósvarað. Enn er óljóst hver reynslan er af skilyrðingum, hver gagnsemi slíkra skilyrðinga er og hvaða áhrif þær hafa á þá sem eru beittir slíkum skilyrðingum. Við teljum að skoða verði málið mun betur og leggjumst því gegn því að málið verði tekið út úr nefndinni.“

Virðulegi forseti. Þess vegna er svo dapurlegt að ekki skuli hafa verið farið í það af hálfu ráðuneytisins, það var greinilega vilji fyrir því að leggja frumvarpið fram aftur, að taka saman þessar upplýsingar.

Einnig kemur fram í frumvarpinu að óheimilt sé að skerða fjárhagsaðstoð sem er sérstaklega vegna framfærslu barna og ætluð börnum samkvæmt reglunum. Nú hef ég engin gögn í höndunum um hvort og þá hversu mörg heimili þar sem börn búa hafa verið beitt skilyrðingum á fjárhagsaðstoð. Mér finnst það vera stór galli, því að ég hef sannast sagna enga hugmynd um hvort þar séu einhver börn sem búa við enn krappari kjör en þau sem fylgja því að búa á heimili þar sem foreldrarnir eru þiggjendur fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga, því að það eru jú ekki háar upphæðir þó svo að þær séu, við getum sagt mislágar á milli sveitarfélaga.

Við erum nýbúin að fá í hendur skýrslu UNICEF á Íslandi um stöðu barna á Íslandi þar sem kemur í ljós að allt of stór hluti barna í okkar annars ríka velmektarsamfélagi býr við skort. Fram kom í máli hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur áðan að það væru 2.500 fjölskyldur með börn á framfæri sem fengu fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum árið 2014. Mér finnst okkur vanta hreinlega miklu betri upplýsingar því að við vitum eftir þessa skýrslu að börn á heimili sem eiga foreldra í 50% starfshlutfalli eða minna eru líklegri en aðrir hópar til að búa við skort. Við hljótum að vilja hafa betri upplýsingar um þennan hóp, því að eins erfitt og ég held að það sé fullorðnu fólki að búa við fátækt þá held ég og rannsóknir benda raunar á það að það sé jafnvel enn erfiðara fyrir börn sem eru auðvitað á viðkvæmu mótunarskeiði.

Úr því að ráðuneytið fór ekki í betri greiningar á hópnum milli þinga vil ég vísa því til hv. velferðarnefndar, sem ég sit reyndar ekki í lengur, að hún taki þetta sérstaklega til skoðunar, að skoða hvort og þá hversu mörg börn búi á heimilum, annars vegar þar sem foreldrarnir fá fjárhagsaðstoð og hversu mörg búa á heimilum sem hafa verið beitt einhverjum skilyrðingum.

Ég get í rauninni ekki séð hvernig það eigi að vera framkvæmanlegt að skerða fjárhagsaðstoð til foreldra án þess að það komi niður á börnunum þó svo að ekki eigi að skerða það sem sérstaklega er vegna framfærslu barna. Þetta þurfum við að skoða alveg sérstaklega vel.

Ég hef líka áhyggjur af því og finnst vanta miklu betri upplýsingar um það hvað verður um það fólk sem hefur verið beitt skilyrðingum og hefur þess vegna fengið skerðingu á bætur sínar. Hvað verður um það?

Reynslan frá Danmörku hefur sýnt að hætta er á því að það fólk sem hefur verið atvinnulaust lengi og hefur vegna virkniskilyrðinga dottið út af bótum ýtist bara enn lengra út úr samfélaginu, út úr allri samfélagsþátttöku. Það verði þar með í rauninni þátttakendur í einhvers konar hliðarsamfélagi, hliðarsamfélagi fólks sem hefur enga peninga til að framfleyta sér og því eru þess vegna allar bjargir bannaðar. Þetta vil ég alls ekki sjá í velferðarsamfélagi okkar vegna þess að ég held að kostnaðurinn af þessu til langs tíma litið verði auðvitað miklu meiri en það sem til skamms tíma gæti verið einhver sparnaður í útgjöldum sveitarfélaganna vegna fjárhagsaðstoðar.

Það saxast hratt á tímann. Það er eitt atriði sem mig langar að lokum að vekja máls á. Í 2. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til þess að beita megi skilyrðingum, þar kemur fram varðandi fjárhagsaðstoðina að ef einstaklingur sem metinn er vinnufær að hluta eða öllu leyti en uppfyllir ekki skilyrði um virka atvinnuleit þá sé heimilt að skerða grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðarinnar. Mér finnst mikilvægt að lesa þetta í samhengi við þá umræðu sem hefur verið talsvert mikil um breytingar á almannatryggingakerfinu þar sem talað er um að taka upp starfsgetumat. Ég held að þarna geti orðið til baneitrað samspil. Það er þannig að á Íslandi er engin löggjöf sem bannar að fólki sé mismunað á vinnumarkaði vegna skerðingar, sem þýðir í rauninni að það er ekkert sem lagalega bannar atvinnurekendum að mismuna fólki sem ekki hefur fulla starfsorku.

Þegar þetta tvennt er komið saman, þ.e. annars vegar megi greiða fólki hlutabætur vegna þess að það hefur einhverja vinnugetu og hins vegar megi einnig skerða fjárhagsaðstoð ef fólk uppfyllir til dæmis ekki skilyrði um frumkvæði um virka starfsleit, þá er fólk sett í alveg óskaplega erfiða stöðu. Hér finnst mér öll ábyrgðin sett á hendur einstaklings í viðkvæmri stöðu en ekkert talað um ábyrgð atvinnulífsins að ráða í auknum mæli fólk (Forseti hringir.) sem er með skerta starfsgetu til starfa. Ég held að út úr þessu geti komið mjög vanvirðandi staða upp fyrir það fólk. (Forseti hringir.) Ég vil að lokum, vegna þess að tími minn er búinn, beina því til velferðarnefndar að hugsa þetta samspil saman.