145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[18:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugaverða ræðu. Ég var á síðasta þingi á móti þessu máli og er það enn þá. Ég verð að viðurkenna að ég hef verið að hugsa aðeins meira um þetta og velta fyrir mér framtíðarmúsíkinni í þessum efnum. Ég er sjálfur þeirrar róttæku skoðunar að enginn eigi að vera fátækur. Sömuleiðis þykir mér áhugaverð um aðferð sem er kölluð í daglegu tali borgaralaun, þótt ég sé ekki fullkomlega sannfærður um hana, og þingflokkur Pírata hefur lagt fram tillögu um að skoða þann kost, sér í lagi í samhengi við atvinnuþróun og atvinnuþátttöku til lengri tíma og svo framvegis.

Þegar ég hugsa um frumvarpið þá er auðvitað eitt af markmiðum þess að skýra löggjöfina, það er ekki eins og þessi löggjöf sé algjörlega nauðsynleg til að sveitarfélög fari að skilyrða fjárhagsaðstoð, þau gera það nú þegar. En þau gera það á lagagrundvelli sem einhverjum þykir óskýr. Þannig að ég er að velta fyrir mér hvort andstaða við þetta mál sé endilega lykillinn að því að breyta einhverju í málaflokknum til þess vegar sem ég og hv. þingmaður teljum betri að svo stöddu. Ég velti fyrir mér hvort þetta mál sé í raun og veru það sem skeri úr um hvort skilyrðing fjárhagsaðstoðar í núverandi lagaumhverfi sé viðunandi eða ekki. Þess vegna velti ég fyrir mér hvernig hv. þingmaður lítur á fyrirkomulagið, hvernig það ætti að vera ef við gleymum þessu frumvarpi alfarið, ef við látum í augnablik eins og það sé ekki til umræðu hér. Hvernig lítur hv. þingmaður á fyrirkomulagið eins og það er, sérstaklega í ljósi þess að fjárhagsaðstoð er skilyrt eins og er af sveitarfélögum víða á grundvelli gildandi laga?