145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[18:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er í rauninni alveg sammála því að það eigi að nálgast þetta mál út frá heildstæðri sýn. Hluti af þeirri heildstæðu sýn hlýtur auðvitað að vera hvernig samfélag við viljum hafa á Íslandi. Viljum við hafa sterkt velferðarsamfélag? Við vitum öll að það kostar peninga, en skiptar skoðanir eru um það hvernig eigi að afla peninganna til þess að reka velferðarsamfélag. Þess vegna held ég að við höfum ólíkar skoðanir á því hversu sterkt í rauninni velferðarsamfélagið eigi að vera.

Það er dálítið erfitt að taka utan um hina heildstæðu sýn þegar síðan er komið með frumvörp eins og þetta inn í það vegna þess að ég trúi ekki á þá leið sem hér er verið að leggja til. Ég trúi því ekki að þetta bæti í raun stöðu þess fólks sem þarf að reiða sig á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna þó svo að ég trúi því svo sem alveg að það bæti fjárhag sveitarfélaganna. Það eru fyrst og fremst einstaklingarnir sem ég hef áhyggjur af í þessu samhengi. Það verður aldrei til, held ég, betri mælikvarði á velferðarsamfélagið en einmitt það hvernig þeir sem höllustum fæti standa hafa það í samfélaginu. Það hlýtur alltaf að vera lokamælikvarðinn á velferðarsamfélagið.

Ég sé að ég hef ekki tíma til þess að ræða borgaralaunin, en það skyldi þó ekki fara svo að við eigum einhvern tímann eftir að taka smásyrpu í umræðu um þau einhvern tímann í framtíðinni? Það verður áhugavert.