145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[18:17]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp um félagsþjónustu sveitarfélaga, þ.e. um skilyrta félagsaðstoð. Ég vil byrja á því að segja að ég er hlynnt þessu frumvarpi, en við heyrum það á umræðunni að hv. þingmenn hafa mismunandi skoðanir og líta á frumvarpið frá mismunandi sjónarhornum. Þeir sem eru andvígir frumvarpinu líta margir hverjir á það sem ákveðinn refsivönd varðandi félagsþjónustu á meðan sumir hv. þingmenn sem hlynntir eru frumvarpinu líta á það sem tækifæri til að efla einstaklinga svo þeir geti nýtt sér tækifæri til sjálfshjálpar og komist með einstaklingsmiðaðri nálgun og hjálp út á vinnumarkaðinn eða í önnur vinnumarkaðsúrræði.

Fjöldamörg sveitarfélög á landinu í dag nýta sér skilyrta fjárhagsaðstoð. Ef frumvarp þetta verður að lögum þurfa sveitarfélögin ekki að gera það, það mun ekki skylda sveitarfélögin til að fara eftir þessu heldur eru hér reglur um hvernig fara á að því að bjóða upp á skilyrta félagsaðstoð og samræma þetta á milli sveitarfélaga.

Eins og fram kom í ræðu hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra og eins og jafnframt hefur komið fram í ræðum nokkurra hv. þingmanna felur frumvarpið í sér breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og er ráðherra falið að gefa út leiðbeiningar til sveitarfélaga um framkvæmd fjárhagsaðstoðar þar sem m.a. er kveðið á um viðmiðunarfjárhagsaðstoð sem sveitarfélög geta nýtt sér við setningu eigin reglna um framkvæmd fjárhagsaðstoðar. Hins vegar er lagt til að sveitarfélögin fái skýrari heimild til að skilyrða fjárhagsaðstoð félagsþjónustu sveitarfélaga við virkni þeirra sem eru vinnufærir og fá fjárhagsaðstoð þar sem þeir hafa ekki fengið störf.

Vert er að taka það fram, vegna þess að ég varð vör við misskilning í umræðunni um frumvarpið síðastliðið vor þegar það var hér til umfjöllunar, að frumvarpið nær ekki til þeirra einstaklinga sem eru óvinnufærir að fullu. Það nær til einstaklinga sem teljast vinnufærir að fullu eða að einhverju leyti. Frumvarpið fór til hv. velferðarnefndar síðasta vor, fyrir bráðum ári síðan. Þá ræddum við það hér við 1. umr. og fór það síðan til hv. velferðarnefndar þar sem fjöldi umsagna kom um málið. Sýndist sitt hverjum um það. En frumvarpið var afgreitt úr nefnd með þremur nefndarálitum, sem sagt með meirihlutaáliti og tveimur álitum minni hluta.

Mig langar aðeins að fara yfir nokkra þætti sem fram koma í nefndaráliti meiri hlutans sem ég studdi. Auk þess ætla ég að gefa mér smá tíma til að ræða verkefni sem unnið hefur verið á Akranesi, í mínum heimabæ til nokkurra ára, er snýr að þessum skilyrðingum.

Ég vil aðeins grípa niður í nefndarálit meiri hluta velferðarnefndar frá síðasta vori. Þar kemur fram að þessar reglur séu hjá flestum sveitarfélögum um framkvæmd fjárhagsaðstoðar og að þegar sé heimild til að setja fjárhagsaðstoð skilyrði. Umsagnaraðilar töldu skilyrðingu fjárhagsaðstoðar við virka atvinnuleit í vissum tilvikum nauðsynlega til að ýta undir virkni móttakenda fjárhagsaðstoðar og koma þannig í veg fyrir þeir yrðu háðir fjárhagsaðstoð til framtíðar. Jafnframt mætti þannig stuðla að því að þeir takmörkuðu fjármunir sem væru til ráðstöfunar fjárhagsaðstoðar rynnu til þeirra sem helst þyrftu á þeim að halda.

Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, fara að næstu efnisgrein nefndarálitsins. Þar segir:

„Meiri hluti nefndarinnar telur rétt að líta til þess að eitt af hlutverkum félagsþjónustu sveitarfélaga er að hvetja einstaklinga til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum og styrkja þá til sjálfshjálpar, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þannig segir í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögunum: „Enda þótt frumvarp þetta mæli fyrir um margvíslegar skyldur sveitarfélaga til að tryggja félagslega velferð einstaklinga verður að leggja áherslu á það grundvallaratriði að einstaklingum er engu að síður ætlað að bera ábyrgð á sjálfum sér og sínum.“ Síðar í athugasemdunum segir: „Í frumvarpinu er lögð áhersla á hjálp til sjálfshjálpar þannig að veitt aðstoð og þjónusta hafi það að markmiði að einstaklingurinn verði sjálfbjarga og fær um að lifa sem eðlilegustu lífi. Þessi endurhæfingar- eða hæfingarsjónarmið skulu því höfð í hávegum í sambandi við veitta aðstoð, hvort sem hún er fólgin í ráðgjöf, fjárhagsaðstoð eða útvegun atvinnu.“ Í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 97/1995, segir að öllum, sem þess þurfa, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Í athugasemdum við 14. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 97/1995 segir að ekki hafi verið ráðgert að sá sem gæti séð nægilega fyrir sér sjálfur þyrfti að njóta réttar til slíkrar aðstoðar, líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarp það sem hér er til umræðu.

Meiri hluti nefndarinnar — sem sagt hv. velferðarnefndar — telur það fyllilega í samræmi við þessa grunnhugsun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar að réttur vinnufærs einstaklings til fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga sé háður því skilyrði að hann leitist við að afla sér atvinnu til að framfæra sjálfan sig og fjölskyldu sína nema gildar ástæður séu fyrir öðru. Að mati meiri hlutans er það hvorki neikvæð né refsikennd nálgun heldur eðlileg afleiðing af skyldu hvers manns að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Meiri hlutinn áréttar að þegar eru í reglum flestra sveitarfélaga um framkvæmd fjárhagsaðstoðar heimildir til að setja fjárhagsaðstoð skilyrði um virka atvinnuleit. Meiri hlutinn telur fram komið að þær hafi reynst vel og gagnast sveitarfélögum við að vinna gegn því að móttakendur fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga verði óvirkir til lengri tíma sem getur haft slæmar persónulegar og félagslegar afleiðingar í för með sér. Sveitarfélög hafa þó kallað eftir skýrari lagaramma.“

Ætlun okkar eða hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra er að skýra þennan lagaramma því að eins og fram hefur komið í ræðu minni vinnur mikill fjöldi sveitarfélaga samkvæmt þessum skilyrðingum í dag.

Ég ber fulla virðingu fyrir því að þingmenn hafi mismunandi skoðanir á hlutunum, auðvitað, það er ósköp eðlilegt. Mig langar að segja frá verkefni sem unnið hefur verið í heimabæ mínum, Akranesi, og hefur verið samstarfsverkefni Skagastaða, Vinnumálastofnunar og Akraneskaupstaðar. Þar hefur þessum skilyrðingum verið beitt að einstaklingar sem fá fjárhagsaðstoð og teljast vinnufærir að fullu eða að hluta hafa farið í gegnum skilyrðingarnar og fengið einstaklingsmiðaða nálgun. Unnar eru einstaklingsáætlanir í samvinnu við þann einstakling sem um ræðir og kannað hvort hann treystir sér, með hjálp sérfræðinga, félagsfræðinga, sálfræðinga og þeirra sem þar vinna, að stíga skrefið og velja vinnumarkaðsúrræði, hvort sem það er úti á vinnumarkaðnum, tengt námi eða hvað það nú er. Akraneskaupstaður brá á það ráð þar sem bærinn rekur ýmsar þjónustustöðvar, til dæmis íþróttahús, sundlaug og menntastofnanir, að búa til störf innan þessara stofnana þar sem einstaklingarnir hafa fengið störf við hæfi, hlutastörf í flestum tilfellum. Það eru einstaklingar sem hafa verið heima í langan tíma í þeim tilvikum þar sem ég þekki til, og hafa þurft hjálp sérfræðinga til að komast út á ný, þeir hafa ekki treyst sér til þess að stíga þessi skref einir og óstuddir.

Ég á stundum leið upp í íþróttahús og hef hitt einstaklinga þar, bæði sem vinna þar og sem eru þar í öðrum erindagjörðum, sem hafa verið að fara í gegnum þetta ferli. Mér er sérstaklega minnisstætt að hitta þar einn einstakling sem þakkaði sannnarlega fyrir það að þetta kerfi væri til staðar. Auk þess hef ég hitt fólk annars staðar í öðrum stofnunum sem segja sömu sögu. Vegna þess að við vorum að vinna með þessi mál á sama tíma og ég hitti þetta fólk spurði ég það út í hvernig þessi úrræði hefðu reynst því og hvernig það hefði upplifað þetta ferli. Mér er mjög minnisstætt að þau sögðu öll sömu söguna, að þau væru þakklát, hefðu verið heima í of langan tíma og hefðu ekki treyst sér út, hefðu verið komin með félagskvíða og voru viss um að þau væru ekki farin út að hitta fólk nema með þessari hjálp, skilyrtri félagsaðstoð. Og vegna þess að ég hef heyrt sögur þessara einstaklinga get ég ekki horft á frumvarpið út frá refsingarsjónarmiði, heldur bara sem hjálp fyrir þetta fólk, sem tæki til þess að hjálpa einstaklingum sem þurfa á hjálp að halda til að komast út á meðal fólks og taka þátt í félagslegum samskiptum og þess háttar. Mér finnst þetta verulega til bóta en ber þó virðingu fyrir skoðunum annarra.

Auk þess hef ég fengið kynningu og mér var sagt að þingflokkur Framsóknarflokksins hefði fengi kynningu á starfsemi VIRK starfsendurhæfingar þar sem fram kom að flestir vilja fá að vinna og flestir vilja færa björg í bú. Þeir hafa náð góðum árangri í störfum sínum og þeir einstaklingar sem nýtt hafa sér úrræði þeirra hafa verið mjög jákvæðir og ánægðir.

Ég lít því á þetta frumvarp jákvæðum augum. Ég fagna því að það sé komið fram. En ég er nefndarmaður í hv. velferðarnefnd þingsins og vil árétta að það er ekki skylda sveitarfélaga að fara eftir þessum reglum heldur eru þetta reglur um hvernig vinna skuli að þessum málum. Málið verður tekið til efnislegrar vinnslu í hv. velferðarnefnd þingsins þar sem við munum senda málið til umsagnar þegar þar að kemur og kalla mismunandi aðila, sveitarfélög og aðra sem málið varðar til fundar við nefndina og síðan mun nefndin ræða málið. Ég hlakka til þeirrar vinnu og vona að mismunandi sjónarmið einstaklinga og hv. þingmanna fái að njóta sín.