145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[18:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi það sem ég tel alveg hárrétt sem er að flestir vilja vinna. Mín reynsla af lífinu og fólki sem vinnur ekki mjög mikið og öðrum sem horfa á og telja að þau gætu unnið meira eða eitthvað, þegar ég hef kynnst þannig tilfellum, og hef alveg kynnst þannig tilfellum eins og hver annar, þá er það reynsla mín að það sé alltaf eitthvert undirliggjandi vandamál eða misskilningur gagnvart lífinu og tilverunni sem valdi. Með hliðsjón af því að þessu ágæta framtaki, sem er mjög áhugavert og væri gaman að heyra meira um, frá Akranesi sem hv. þingmaður fór út í sýnist mér reynslan vera sú að ef það er einhvers konar inngrip sem leiðir fólk yfir á braut virkni, hvort sem það er atvinnuþátttaka eða önnur tegund af virkni, eitthvað sem leysir fólk úr þeim viðjum að hanga og gera ekki neitt sem sumir festast í án þess að vera kannski með formlega greiningu af nokkru tagi, þá er hægt að búa til nógu mikið svigrúm til þess að hvetja fólk til virkni og atvinnuþátttöku án þess að komi til skilyrðinga á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.

Eftir því sem ég hugsa þetta mál meira verður mér óljósara hvort þessar hugmyndir eigi heima hjá ríkinu eða sveitarfélögunum. Ég verð aðeins ringlaðri í því þeim mun meira sem ég pæli í því, það gerist stundum. En ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður telji í raun mikla þörf á því að skilyrða fjárhagsaðstoð sveitarfélaga ef það eru næg tækifæri til þess að grípa inn í og leiða fólk yfir á braut virkninnar. Ástæðan fyrir því að ég spyr er vegna þess að ég trúi því að fólk vilji vera virkt og þurfi að vera virkt. Ef það er ekki virkt held ég að það sé annaðhvort eitthvað að eða einhvers konar misskilningur gagnvart lífinu og tilverunni.