145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[18:33]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er svo að sveitarfélögin fara með félagsþjónustu í landinu og framkvæmd hennar og Alþingi sem löggjafi setur reglurnar. Þetta frumvarp er samkomulag á milli ríkisins og sveitarfélaganna um að þetta komi fram.

Varðandi það að oft séu undirliggjandi vandamál sem orsaka það að einstaklingar eru í þeirri stöðu sem þeir eru í tel ég að þá sé mjög gott að fólk fái einstaklingsmiðaða nálgun og hjálp þeirra sérfræðinga sem kunna með þessa hluti að fara og geta leiðbeint einstaklingunum í að taka lítil skref í átt að því að verða virkir á ný. En því miður þarf oft einhvers konar hluti til að ýta við fólki eins og kannski skilyrðingar, til að hjálpa því af stað.

Í þeim tilvikum sem ég þekki til hefur þetta haft jákvæð áhrif. Fólk hefur ekki orðið fyrir skerðingum þar sem það hefur fengið einstaklingsmiðaða aðstoð. Það hefur verið byrjað á kannski einum, tveimur tímum á dag í einhverjum úrræðum, sama hvort það er að mæta örfáa á dag á námskeið eða á vinnustað. Það nægir mér að sjá að það eru einstaklingar sem koma fram og hjálpa þessu fólki til sjálfshjálpar svo það verði virkt í samfélaginu á ný.

Ef ég náði ekki að svara hluta af spurningum hv. þingmanns bið ég hann að endurtaka þær fyrir mig.