145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[18:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég vil bara endurtaka það sem ég sagði áðan að ég er svo hjartanlega sammála hv. þingmanni um að auðvitað eigi að nota einstaklingsmiðaðar nálganir og aðstoða fólk til virkni og mæta því þar sem það er statt.

Það er einmitt sá hópur sem er ekki virkur og hefur ekki verið að svara úrræðunum, sem ég kom til að mynda inn á í ræðu minni, sem ég hef áhyggjur af. Reynslan hefur til dæmis sýnt í Danmörku að með því að beita skerðingum hefur fólk færst enn lengra út á jaðarinn og í rauninni færst fjær samfélagsþátttöku.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann, því að við sátum saman í hv. velferðarnefnd síðasta vetur, hvort hún gæti tekið undir það með mér að það hefði verið til bóta nú þegar við ræðum þetta frumvarp hér öðru sinni að hafa betri upplýsingar um þær skerðingar sem sveitarfélögin beita og upplýsingar um hvaða áhrif þær hafa haft á fólkið sem varð fyrir þeim. Ég held að það sé engum blöðum um það að fletta að þeim sem tekst að komast í virkni með einstaklingsbundnum nálgunum hefur oft farnast vel. Það er fólk sem hefur plumað sig á vinnumarkaði. Er þingmaðurinn sammála mér um að það hefði verið til mikilla bóta að hafa upplýsingar um (Forseti hringir.) það hvernig þessar skilyrðingar hafa farið með fólk sem þeim hefur verið beitt á?