145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[18:46]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil enn og aftur þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvarið. Við erum sammála því að einstaklingsmiðaðar nálganir séu góðar til þess að ná fram virkniúrræðum ef við náum fólki inn í þau. Þær eru alltaf til bóta því að það er mismunandi hvað hæfir hverjum og einum.

Hv. þingmaður spurði mig hvort það hefði verið til mikilla bóta í hv. velferðarnefnd ef við hefðum haft gögn um þessar skerðingar og þess háttar. Það kom fram í nefndinni sl. vor að eiginlega flestöll sveitarfélög í landinu nýttu sér þessar skerðingar, en þar sem þetta er ekki samræmt er mismunandi hvernig farið er að þar sem ekki er til gagnagrunnur og afar flókið að ná fram þessum upplýsingum. Það er verið að vinna að gagnasöfnun og verið að safna upplýsingum um stöðu og gæði félagsþjónustu í landinu. Það er spurning hvenær það mun liggja fyrir. Auðvitað eru upplýsingar alltaf af hinu góða, en miðað við hvernig þetta hefur virkað þar sem ég þekki til þá hef ég góða tilfinningu fyrir þessum málum.

Auk þess vil ég árétta hér að lokum að það verður ekki skylda sveitarfélaganna að fara eftir reglum frumvarpsins, ef það verður að lögum, heldur eru þetta aðeins reglur til að samræma þjónustuna á milli sveitarfélaga sem getur auðveldað okkur alla gagnaöflun og upplýsingar um stöðu og gæði félagsþjónustunnar í landinu. Það er afar mikilvægt að við höfum tök á að ná í þær upplýsingar.