145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[19:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti áfram fyrir mér því sem ég hef verið svolítið að velta fyrir mér í fyrri andsvörum. Það virðast allir vera sammála um að virkniúrræði séu góð hugmynd. Það virðast líka allir vera sammála um að þau virki. Ég verð að viðurkenna að þegar maður kemur meira að þessu máli og því meira sem ég hugsa um það því opnari verð ég einhvern veginn í báðar áttir. En ég er á móti frumvarpinu eins og er en það getur alltaf breyst, sér í lagi ef hv. stjórnarliðar taka meiri þátt í umræðunni sem ég kann mjög að meta, þá kemur oft eitthvað nýtt upp sem fær mann ýmist til að hugsa eða læra eitthvað af.

Það sem ég hef áhyggjur af er að skerðingarnar verði til þess að menn reyni ekki á virkniúrræðin að því marki sem þær annars mundu gera. Það er oft þannig til dæmis að ef menn eru með mjög harðar refsingar í einhverjum brotamálum þá stóli þeir kannski meira á hörkuna eða valdheimildir lögreglu, þá stóla þeir meira á hörkuna frekar en að leysa vandamálið með einhverjum öðrum aðferðum. Ég hef smááhyggjur af því að þetta verði til þess að í stað þess að sveitarfélög beiti virkniúrræðum og beiti svolítið sköpunargáfunni í því að búa til þau virkniúrræði og hvetji fólk til þátttöku, ekki bara til atvinnuþátttöku heldur bara þátttöku í lífinu, að þau úrræði ýmist standi í stað eða alla vega þróist ekki í ný vegna þess að skerðingar eru alltaf til staðar. Þetta er kannski eitt af því sem ég hef helst áhyggjur af þegar kemur að frumvarpinu.

Burt séð frá því þá langar mig að spyrja hv. þingmann um annað sem ég fór út í áðan: Er það endilega þetta frumvarp sem gerir útslagið um þennan málaflokk? Vegna þess að nú liggur fyrir að sveitarfélögin eru að skilyrða fjárhagsaðstoð og enginn virðist efast um (Forseti hringir.) það lögmæti fyrir dómstólum eftir því sem ég best veit. En er þetta frumvarp endilega aðalatriðið?