145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[19:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er vissulega svolítið skrýtin staða og ég get sagt snúin staða. Einhver sveitarfélög hafa í reynd skilyrt þessa aðstoð í skjóli þess að það ríkir kannski ákveðin lagaleg óvissa eða ákveðið lagalegt tómarúm um stöðuna án þess að mér vitanlega hafi reynt á það nokkurs staðar, enda er þessi hópur kannski ekki sá sem fyrstur og líklegastur væri til þess að fara að reka mál fyrir dómstólum vegna þess að hann hefði misst fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sínu.

Þá er spurningin, hvernig ætlar löggjafinn að bregðast við? Við eigum auðvitað tvær leiðir. Ef við bara kyngjum því að þetta sé réttlætanlegt þá breytum við lögum og segjum: Já, sveitarfélögin mega gera þetta. Setjum því að vísu vissar skorður, pökkum því þannig inn. Við gætum líka komist að gagnstæðri niðurstöðu. Það að sveitarfélög hafa verið að gera þetta í einhverjum mæli og mörg hver í góðri trú, ég veit það og hafa viljað vel, viljað sínu fólki vel, í skjóli þess að ekki hefur ríkt skýr lagaleg staða um þetta, það eru ekki í sjálfu sér endanleg rök fyrir því og við komumst að þeirri niðurstöðu að þannig eigi það að vera. Alþingi þarf að svara þeirri spurningu, svara bæði lagalegum en ekki síður í raun og veru siðferðilegum grundvallarspurningum í sambandi við þetta mál.

Aftur kem ég að því sama sem ég lagði dálítið út af í ræðu minni, þetta er neðsta og síðasta öryggisnetið í samfélaginu sem á að grípa fólk þegar önnur úrræði bresta. Þegar menn eiga hvergi annars staðar rétt, þá á þetta að vera þarna til þess að tryggja að menn hafi þó alla vega einhverja lágmarksmöguleika til að komast sómasamlega af í samfélaginu.

Svona lít ég á grundvallarstöðuna í málinu. En svo finnst mér líka að ræða þurfi þetta með virkniúrræði og að þau virki. Já, enginn vafi er á því að það skiptir miklu máli að aðstoða fólk við að lokast ekki af og bogna undan veruleikanum og sætta sig smátt og smátt við þessa tilvist, aðstoða við það að reyna að vinna sig út úr þessu, en það er hægt að gera það (Forseti hringir.) með bæði jákvæðum og neikvæðum formerkjum.