145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[19:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það má alveg til sanns vegar færa að þetta sé alveg umhugsunarefni hvernig verkum er skipt milli ríkis og sveitarfélaga í þessum efnum, en það á sér auðvitað mjög langan sögulegan bakgrunn. Stóru millifærslukerfin og almenn réttindi tryggð á landsvísu, þar er ríkið á ferð með örorkulífeyri, með ellilífeyri, barnabætur eða hvað það nú er. En það á sér náttúrlega margra alda hefð að þegar kemur að íbúum sveitarfélags þá skuli það samfélag, nærsamfélagið, axla vissa ábyrgð á hlutum eins og þeim að menn eigi einhvers staðar höfði sínu að halla, skyldur sveitarfélaganna á sviði húsnæðismála og skyldur sveitarfélaganna gagnvart lágmarksframfærslu og framfærsluskyldan er auðvitað mjög gömul hjá hreppunum í landinu og mætti margt um þá hluti segja í sögulegu ljósi.

En það er ekki endilega þar með sagt að þetta sé besta fyrirkomulagið. Marga kosti hefur það þó, að gera sveitarfélagið, nærsamfélagið, ábyrgt fyrir þessu að því leytinu til þegar kemur að hinni daglegu tilveru fólks, að því séu tryggðir möguleikar á að hafa mat og húsaskjól, þá beri nærsamfélagið þar ábyrgð og axlar miklar skyldur í því. Enda er það held ég almennt í betra samræmi við þá hugmyndafræði að færa frekar meira af þeim hlutum til sveitarfélaganna, sem snúa að nærsamfélaginu og samþætta alla nærþjónustuna. Ég held að það sé í raun betri nálgun en fara með eitthvað af þessu til ríkisins aftur eða alla leið þangað þegar kemur að þessum dags daglegu nærþjónustuskyldum ef við getum sagt sem svo.

Svo vil ég að lokum minna á hversu viðkvæm þessi mál geta verið og það að segja (Forseti hringir.) að menn hafi verið metnir að einhverju leyti vinnufærir, það ljómar vel á pappír, en það er ekki alltaf vandalaust verk. Hvernig greinirðu vanda einstaklings sem á (Forseti hringir.) við erfiðleika að stríða á andlegu hliðinni, vanda sem er algerlega falinn og dulinn og sést engan veginn utan á honum, eins og kvíða, kjarkleysi, depurð? Það (Forseti hringir.) er ekki létt verk að skilgreina slíkan einstakling 30% eða 50% vinnufæran.