145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[19:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu.

Það er ljóst að fólk greinir svolítið á um hvernig eigi að nálgast þennan málaflokk þótt allir virðist sammála um ákveðin prinsipp eins og þau að við eigum að stunda virkniúrræði og við eigum að gæta þeirra sem minna mega sín.

En því meira sem ég pæli í þessu máli því ringlaðri verð ég raunverulega yfir því hver framtíðartónlistin eigi að vera í málaflokknum óháð því hvort þetta tiltekna frumvarp verði samþykkt eða ekki.

Eins og komið hefur fram í máli annarra hv. þingmanna er tilgangurinn með frumvarpinu meðal annars sá að samræma hvernig hlutirnir eru gerðir milli sveitarfélaga. Eitt af því sem fer afskaplega í taugarnar á mér í sambandi við almannatryggingakerfið er hversu óheyrilega flókið það er. Ekki hjálpar nú samspilið við sveitarfélögin heldur versnar það ef eitthvað er vegna þess að þar eru auðvitað misjafnar reglur með misjafnar áherslur og menn beita misjöfnum skerðingum á misjöfnum forsendum yfir höfuð.

Þetta þvælist mikið fyrir mér. Þess vegna er ég svolítið að velta fyrir mér hvort þetta sé raunverulega málið sem við ættum að vera að fókusera á, hvort við séum hlynnt þessu tiltekna máli eða ekki. Hvort það væri ekki frekar nærri lagi að reyna að endurskoða málaflokkinn út frá einhvers konar langtímasýn á það hvernig við ætlum að hafa öll þessi öryggisnet. Við erum með almannatryggingakerfið til að sjá um lífeyri, örorkubætur og því um líkt, en síðan erum við með þetta kerfi, sem ég hefði haldið að væri í sama pakka, í allt öðrum farvegi, ósamræmt og svoleiðis. Þess vegna sé ég svolítið í frumvarpinu alveg jákvæða hugsun þótt ég sé ekki sammála því á þessum tímapunkti að skilyrt fjárhagsaðstoð eigi að vera. En mér finnst eitthvað þurfa að gera til að komast til móts við þessi vandamál sem frumvarpinu er jú í orði ætlað að leysa. Ég velti því fyrir mér hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér að við gerum það.