145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[19:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef í raun og veru bara eina hugmynd til reiðu en hún þykir mjög róttæk og er að mínu mati ekki raunhæf alla vega miðað við aðstæður í dag og það eru borgaralaun.

En það er einhver langtímahugsun sem við þurfum að skoða í áratugasamhengi og þá með hliðsjón af mjög breyttu samfélagi, sér í lagi vegna tækniframfara og atvinnuleysis í kjölfar þeirra.

En það sem þvælist kannski helst fyrir mér hér og nú er að mér finnst þetta vera hlutverk sem í raun og veru ætti að tilheyra kerfi eins og almannatryggingum eða einhverju sambærilegu kerfi sem er hjá ríkinu. Hins vegar þykir mér einhvern veginn, eftir samtal mitt við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon hér, ekki í fljótu bragði skynsamlegt að taka til baka frá sveitarfélögunum þetta hlutverk og leggja það til ríkisins. Mér þætti það óráðleg þróun þegar maður hugsar það til enda og ræðir það aðeins.

En sömuleiðis þykir mér ekki góð hugmynd í fljótu bragði að færa almannatryggingakerfið til sveitarfélaga. Þannig að ég þarf að horfast í augu við það að þetta verði alltaf ofboðslega flókið og einhvern veginn ekki samræmi í því nákvæmlega hvaða hlutverki hver eigi að gegna þegar kemur að félagslegum úrræðum eða einhvers konar aðstoð við fólk sem ýmist getur ekki eða er ekki í aðstöðu til þess að afla sér tekna með hefðbundnum hætti, þ.e. með atvinnu.

Mér finnst framtíðarmúsíkin í raun og veru fjarlægjast okkur því meira sem við ræðum þetta og það er það sem ég á í svolitlum vandræðum með. Þar koma að hluta til þær efasemdir mínar um að það sé endilega þetta frumvarp sem skipti einhverju höfuðmáli í málaflokknum. Þessi mál almennt hafa tilhneigingu til að vera flókin. Þau hafa tilhneigingu til þess að vera umdeildari, held ég, en þau þyrftu að vera vegna þess að þau eru flókin og þess vegna þrái ég eiginlega að sjá til nokkurra áratuga einhverja heilsteypta mynd um hvernig við ætlum að hafa þetta allt saman. Ég sé hana ekki sjálfur.