145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

aðgerðir í húsnæðismálum.

[10:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil af þessu tilefni taka undir með síðasta hv. þingmanni og lýsa andúð á þeim ráðstöfunum sem gripið hefur verið til í Danmörku og sérstaklega lýsa áhyggjum við samstarfsráðherra Norðurlanda af þeirri stöðu sem norræna vegabréfasamstarfið, samstarfið um landamæralaus Norðurlönd, er komið í á því herrans ári 2016.

Ég kveð mér hér hljóðs til að spyrja hæstv. ráðherra um mál málanna, húsnæðismál á Íslandi og aðgerðir í þeim. Því miður hefur ekki mikið þokast í þeim það sem af er þessu kjörtímabili og hillir nú undir lok þess, en því ber þó að fagna að hingað inn eru komin frumvörp frá hæstv. ráðherra um aðgerðir í þeim efnum. Ýmislegt þar er jákvætt og vert að styðja að mínu mati. Það veldur hins vegar vissum áhyggjum að það sem hefur verið í lagi í húsnæðismálunum, stór og sterk félög eins og Félagsstofnun stúdenta og Félagsbústaðir í Reykjavík, aðilar á húsnæðismarkaði sem hafa reynst tryggt úrræði fyrir þúsundir manna sem þurft hafa á öruggu húsnæði að halda, hafa áhyggjur af málunum og frumvörpunum. Félagsstofnun leggst alfarið gegn frumvarpinu um hið almenna vegna þess að það sé miklu ríkari þörf á fjármögnun frá framkvæmdaraðilunum, en Félagsbústaðir vekja athygli á því að það taki tíma að útfæra stofnlánastyrki, en á móti sé ekki gert ráð fyrir neinum niðurgreiðslum á þessu ári. Þeir hafa sérstaklega áhyggjur af því að stofnstyrkir verði hugsanlega ekki veittir á þessu ári og heldur ekki niðurgreidd lán til framkvæmda, og að það verði til þess að það verði gat milli gamla og (Forseti hringir.) nýja kerfisins, að vandinn á yfirstandandi ári aukist.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún hyggist grípa til einhverra ráðstafana vegna þessa.