145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

aðgerðir í húsnæðismálum.

[10:42]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir fyrirspurnina. Hvað varðar þau einstöku félög sem eru nefnd í fyrirspurninni er einmitt sérstaklega hugað að þeim í frumvörpunum um almennu íbúðirnar þar sem tryggt er að þessi félög þurfa ekki á nokkurn máta að breyta starfsemi sinni. Þau geta áfram starfað annaðhvort í hlutafélagaformi eða sem sjálfseignarstofnun en hafa hins vegar möguleika, ef þau svo kjósa, á að fara yfir í nýtt fyrirkomulag, almenn íbúðafélög, og hafa þá líka möguleika á að taka með sér þá fjármögnun sem þau hafa fengið upp á 3,5% inn í þessu nýju félög. Hins vegar geta þau starfað áfram óbreytt eins og þau hafa gert hingað til.

Félagsstofnun stúdenta er það félag sem hefur, eins og hv. þingmaður veit, verið í mestum framkvæmdum sem snúa að félagslegu húsnæði frá því eftir hrun. Á tímabili held ég að sú stofnun hafi verið sú eina í Reykjavík sem byggði eitthvert íbúðarhúsnæði. Ég er algjörlega sannfærð um að þegar félagið skoðar þann aukna stuðning sem felst í stofnframlögunum, þar sem við erum að tala um 18% staðgreiðsluframlag inn í félagið plús síðan 12% framlög sem sveitarfélögin verða líka að veita og síðan að geta fengið hagstæða lánsfjármögnun, muni það styrkja það verulega.

Félagsbústaðir hafa ekki fjölgað íbúðum hjá sér en eru hins vegar með áform um það. Þar á hið sama við, ákvæðið snýr að því að það félag getur haldið áfram að starfa og við erum að vinna af fullum krafti í ráðuneytinu að því að tryggja að um leið og Alþingi er búið að afgreiða lögin getum við farið í að auglýsa eftir styrkjum. Ég hef hvatt sveitarfélögin til að hefja undirbúning að þessu því að Alþingi hefur afgreitt (Forseti hringir.) 1,5 milljarða sem eru til ráðstöfunar á þessu ári.