145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

aðgerðir í húsnæðismálum.

[10:46]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á að frumvarpið er núna í meðferð velferðarnefndar. Velferðarnefnd er að fara yfir þær umsagnir sem hafa borist um málið og að sjálfsögðu verður reynt að taka tillit til þeirra athugasemda eins og hægt er. Eins og ég hef lagt áherslu á er þetta framlag í tengslum við kjarasamninga og gífurlega mikið samráð hefur verið haft þar sem allir þurftu að leggja eitthvað fram og gefa eitthvað eftir til að ná saman um frumvarpið.

Það sem ég vil hins vegar nefna sérstaklega varðandi Íbúðalánasjóð og þau vilyrði sem sjóðurinn hefur gefið er að við munum funda með honum á mánudaginn og fara yfir það sem snýr að þeim loforðum sem sjóðurinn hefur gefið. Ég vænti þess að þá komi niðurstaða þannig að við getum tryggt að þessi félög þurfi ekki að hafa áhyggjur af hinu nýja kerfi, ekki frekar en önnur félög eða þeir sem hafa áhuga á að fjölga íbúðum og styðja við þá sem minnst hafa. Við erum að auka stuðninginn verulega og við ætlum okkur að fjölga á næstu fjórum árum um 2.300 íbúðir þegar kemur að hinu nýja félagslega kerfi (Forseti hringir.) og vonandi mun fleiri þegar við horfum lengra inn í framtíðina.