145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

eftirfylgni með verkefnum gegn ofbeldi.

[11:00]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný fyrir. Það er rétt, ég náði ekki alveg að svara fyrri spurningunni.

Það sem er kjarni málsins með þessu samstarfi er einmitt áherslan á samstarfið. Það hefur sýnt sig í því frumkvöðlastarfi sem hefur t.d. birst í nýju verklagi varðandi heimilisofbeldi á Suðurnesjum sem menn hafa verið að innleiða, og nýju verklagi sem lögreglan á Suðurlandi hefur verið að innleiða varðandi ofbeldi gegn fötluðu fólki, og í Barnahúsi sjálfu, hvað samstarf milli þeirra sem koma að þessum málum skiptir gífurlega miklu máli. Það verður að vera samstarf milli mismunandi stofnana og þjónustuaðila, líka við frjáls félagasamtök, og samstarf og sátt um verklag við fyrstu viðbrögð við ofbeldi og samstarf um að vinna að valdeflingu og vitundarvakningu á sviði aðgerða gegn ofbeldi í íslensku samfélagi.

Á fundinum í dag verður einmitt unnið með „vöffin þrjú“, eins og það er kallað, þ.e. vakningu, viðbrögð og valdeflingu. Það sem snýr (Forseti hringir.) sérstaklega að okkur í velferðarráðuneytinu er velferðarþjónustan, ráðgjöf og margþættur stuðningur (Forseti hringir.) til lengri tíma við þolendur og úrræði fyrir gerendur.

Þegar ég hef verið að ræða (Forseti hringir.) þetta við kollega mína á alþjóðlegum (Forseti hringir.) vettvangi þá finn ég það einfaldlega að við erum (Forseti hringir.) hér í frumkvöðlastarfi, við erum að gera eitthvað sem hefur ekki verið unnið áður. (Forseti hringir.) Þá skiptir svo miklu máli að það séu svona margir sem koma að þessu.