145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

byggingarreglugerð og mygla í húsnæði.

[11:01]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. 30. október 2013 mælti ég sem 1. flutningsmaður fyrir þingsályktunartillögu sem að lokum var samþykkt 12. maí 2014, með 58 samhljóða atkvæðum. Það var þingsályktunartillaga um endurskoðun laga og reglna með tilliti til myglusveppa og tjóns af völdum þeirra. Tillagan hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að skipa starfshóp sem taki til heildstæðrar endurskoðunar lög og reglur á sviði byggingarmála með tilliti til myglusveppa og þess tjóns sem þeir geta valdið. Starfshópurinn skili skýrslu með niðurstöðum sínum og tillögum að úrbótum fyrir 1. júlí 2014 sem ráðherra greini opinberlega frá.“

Virðulegi forseti. Það er skemmst frá því að segja að þáverandi ráðherra brást skjótt við og skipaði strax 10. júní starfshóp átta einstaklinga, sem fékk einnig lögfræðing til að skrifa greinargerð um réttarstöðu þeirra sem verða fyrir tjóni af völdum myglusveppa. Þetta er hin besta skýrsla og ekkert nema gott um hana að segja.

Tillagan fékk víðtækan stuðning eins og ég segi og skýrslan er mjög vel unnin, þar eru margar tillögur til úrbóta, tillögur til breytinga á lögum og tillögur til breytinga á reglugerðum. Í framhaldi af skýrslunni sem skilað var í nóvember 2014 vil ég spyrja hæstv. ráðherra, og spurningin getur verið mjög einföld: Hvað hefur verið gert síðan þessi ágæta skýrsla kom fram? Hver er að vinna og hvað? Er verið að vinna á vegum ráðherra og ráðuneytis hans að breytingum á lögum og breytingum á reglugerð eins og nokkrar tillögur starfshópsins fjalla um?

Virðulegi forseti. Við höfum verið minnt á það upp á síðkastið að mygla hefur komið upp í nokkrum opinberum byggingum en ekki hefur verið mikið (Forseti hringir.) rætt um myglu á fjölda heimila á landinu sem veldur bæði heilsubresti og miklu fjárhagstjóni. Þetta er mjög brýnt mál eins og kom auðvitað í ljós við samþykkt Alþingis og nú spyr ég einfaldlega: Hvað hefur verið gert?