145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

byggingarreglugerð og mygla í húsnæði.

[11:04]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir fyrirspurnina.

Maður skynjar það að byggingarmál og ýmsir kantar varðandi þau eru ofarlega í sinni fólks og það er ekki óeðlilegt. Það er mál málanna varðandi ungt fólk. Það er nauðsynlegt að byggingar séu hagkvæmar, og það höfum við að leiðarljósi, en jafnframt þurfa þær að vera vandaðar.

Myglan er alvarlegt vandamál og ég tek undir með hv. þingmanni að skýrslan sem við fengum í hendur var mjög góð. Ég minnist þess að ég kom að orði við þingmanninn um hvort við ættum að efna sameiginlega til málþings, hádegisverðar eða hvað annað, til þess að ræða þessi mál, en af því varð því miður ekki.

Við höfum verið að kynna þessa skýrslu og komið henni á framfæri, sent hana í ráðuneyti og til stofnana og við höfum beðið um að fá skoðanir þeirra eða greinargerð frá þeim.

Innan húss í mínu ráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, höfum við auðvitað verið að skoða byggingarmálin almennt, byggingarreglugerðir og fleira þessu tengt og sérstaklega um þá galla sem koma af völdum myglusvepps. Auðvitað er stöðugt hægt að skerpa á slíkum málum og ég vil mjög gjarnan geta verið í góðu samstarfi við þingmanninn af því að ég hef skynjað það hér á setu minni á þingi að það er honum hjartans mál að reyna að koma í veg fyrir að myglu í húsnæði og ég tek undir það.

Við þurfum líka að efla menntun ýmissa fagaðila og því hefur verið beint til menntamálaráðherra. Það þarf líka að vinna betur varðandi þann þátt. (Forseti hringir.) Þetta er mál sem ég held að við séum alveg samstiga í að vilja leiða farsællega í höfn.