145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2015.

462. mál
[11:40]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu um þessa greinargóðu skýrslu sem gefur okkur öðrum þingmönnum ágæta yfirsýn yfir starfsemi þingmannanefndar EFTA.

Eitt af því áhugaverðasta sem þarna er að finna er umfjöllun um fríverslunarviðræður Bandaríkjanna og Evrópusambandsins sem nefndar hafa verið TTIP, og kallaðar það óformlega. Það er mjög áhugaverð tilraun tveggja heimsálfa til þess að vinna að því sameiginlega verkefni að auka frjálsa verslun í heiminum.

Hér kemur fram að þingmannanefndin hefur fundað með þingmönnum í Bandaríkjunum og hagsmunaaðilum þar og samningamönnum af hálfu Bandaríkjanna. Það má líka koma fram hér að Bandaríkin hafa haft frumkvæði að upplýsingagjöf til EFTA-ríkjanna, að minnsta kosti hvað varðar atvinnulíf í EFTA-ríkjunum og hefur boðið samtökum í atvinnulífinu, þar á meðal héðan frá Íslandi, Amerísk-íslenska viðskiptaráðinu, Samtökum atvinnulífsins og fleirum til sérstakra upplýsingafunda um þessi mál.

Mig langar að spyrja hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson: Hvernig horfir þessi upplýsingagjöf við af hálfu Evrópusambandsins? Í skýrslunni er rakinn fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA. Ég velti því fyrir mér hvort þingmannanefndin hafi fengið beinan aðgang og beinar upplýsingar frá samningamönnum Evrópusambandsins í þessu máli.