145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2015.

462. mál
[12:04]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að hægt sé ekki nógu hratt í þessum málum. Eðli málsins samkvæmt veitir þingmannanefnd EFTA þessum stofnunum pólitískt aðhald. Ég held að ég geti tekið undir allt sem hv. þingmaður sagði um fríverslunarsamninga og stöðu þeirra. Auðvitað eigum við að beita okkur frekar. Ég tek því sem hvatningu þegar hv. þingmaður segir að við eigum að beita okkur fyrir því, og sá sem hér stendur meira í þessum sal, og ýta á eftir þessu. Ég mun gera það.

Ég vísa í hæstv. ráðherra núverandi ríkisstjórnar. Ég hef ekki fundið fyrir öðru en miklum skilningi og áhuga hans á þessum málum. Umræða um málið á milli okkar á óformlegum fundum hefur kannski verið meira í öðrum löndum á þessum vettvangi. Við ræðum þessi mál ekki mikið. Ég hef margoft flutt það en það aldrei verið fyrsta þingmannamál þangað til í haust og ég hugsaði hvaða leiðir ætti að fara í því með nokkuð sem heitir viðskiptastefna Íslands sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur ekki aulast til að klára þrátt fyrir að allar umsagnir og allt annað hafi verið tilbúið og er það þeirri hv. nefnd til vansa, vegna þess að viðskiptamál eru gríðarleg hagsmunamál og þetta er rosalega stórt utanríkismál. Það er algjörlega fáránlegt að við séum ekki með skilgreinda viðskiptastefnu sem við ræðum um. Við erum svo lánsöm að við getum stýrt þessu öllu og það er fátt í utanríkismálunum sem er með meiri hagsmuni en viðskiptamálin. Ég mun setja þetta mál aftur inn í þingið en verð að viðurkenna að það er til lítils (Forseti hringir.) þegar hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur ekki séð sér fært að klára málið á tveimur ef ekki þremur undanförnum þingum.