145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

norrænt samstarf 2015.

463. mál
[12:34]
Horfa

Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er óhætt að segja að síðastliðið ár hafi verið tíðindamikið í starfi Norðurlandaráðs. Í raun má segja að aldrei áður hafi augu landanna beinst jafn mikið að norrænu samstarfi, hvernig megi styrkja það og þróa það áfram. Það var mikill heiður að fá að gegna embætti forseta Norðurlandaráðs á þessum tíma og ég held að óhætt sé að fullyrða að náðst hafi gríðarlega mikill árangur í því að auka samvinnuna, gera hana dýnamískari og sýnilegri fyrir íbúum Norðurlandanna. Það skiptir miklu máli vegna þess að stórar spurningar snúa að Norðurlöndunum í heild sinni og forsætisráðherrar allra landanna hafa lýst því yfir að aukið samstarf á milli þjóðanna styrki hvert land út af fyrir sig og geti gert að verkum að hægt verði að bæta lífsskilyrði hér og ekki síst styrkja stöðu þeirra út á við í hinum stóra heimi.

Í raun hófst þessi vegferð fyrir tveimur árum á vorfundi Norðurlandaráðs sem var haldinn á Akureyri, á Íslandi. Í fyrsta skipti ákvað Norðurlandaráð í heild sinni að álykta gegn framferði Rússa og gaf út yfirlýsingu um ólöglega innlimun Krímskaga í Rússland. Bent var á að þjóðaratkvæðagreiðslan væri ólögleg, staðan væri óásættanleg og bryti í bága við stjórnarskrá Úkraínu. Í kjölfarið ákvað ég að styrkja samstarf Norðurlandaráðs við þjóðir í Austur-Evrópu, víkka sjóndeildarhringinn og það mæltist vel fyrir. Benelux-löndin ákváðu í kjölfarið að taka þátt í því starfi eftir að flugvél var skotin niður yfir Úkraínu. Það er gaman að segja frá því að í sumar mun Benelux-þingið veita mér sem forseta Norðurlandaráðs verðlaun fyrir þátttöku mína í öllu því starfi. Ég skal viðurkenna að ég er afar stoltur af að hljóta þá viðurkenningu. Það var ekki bara innlimun Rússa á Krímskaga sem vakti athygli okkar heldur líka hryðjuverkaárásirnar í París og Kaupmannahöfn og þær settu heldur betur svip sinn á starf ráðsins.

Eftir að vorþingið var haldið á Akureyri var ákveðið árið eftir að halda það í Brussel í Evrópuþinginu en í kjölfar árásanna í París varð skipulagningin vandasöm og af öryggisástæðum þurftum við að flytja vorfund síðasta árs til Kaupmannahafnar. Ég gagnrýndi hryðjuverkaárásirnar harðlega, gagnrýndi uppgang öfgasamtaka og þeirra sem stunda öfgahyggju og benti ítrekað á að við mættum ekki fella þetta undir trúarbrögð eða að þetta væri hluti af trúarbragðastríði heldur yrðum við að rýna í rót vandans og átta okkur á því að öfgahyggja er að verða eitthvert stærsta vandamál og mesta ógn við okkur sem búum í vestrænum samfélögum. Ég hef bent á að tjáningarfrelsi og lýðræði væru á meðal grundvallargilda og hornsteina hinna opnu norrænu velferðarsamfélaga. Í kjölfarið ákvað Norðurlandaráð að styðja samkomulag norrænna ríkisstjórna um norrænt samstarf um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn öfgastefnu.

Út af fyrir sig er það staðreynd að það eru nýmæli innan Norðurlandaráðs að ráðið fjalli í jafn miklum mæli um utanríkismál. Kannski má segja að Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, hafi gefið okkur ágætisvegvísi þegar hann sagði að ef menn vildu styrkja samstarf milli norrænna þjóða þyrftu menn að ræða utanríkismál í meira mæli. Hann gaf út skýrslu þess efnis og kom svo á fund Norðurlandaráðs í Stokkhólmi fyrir um einu og hálfu ári þar sem hann sat fyrir svörum. Hann sagði að á meðan víggirðingar væru að bresta, heimurinn að minnka, yrði Norðurlandaráð að bregðast við með þessum hætti, ræða erfið mál, ræða utanríkismál, ræða mál líðandi stundar. Í kjölfarið væri hugsanlega hægt að ræða aukið samstarf norrænna þjóða í efnahagsmálum. Forsenda þess væri að norrænar þjóðir, norrænir þingmenn, kæmu saman og ræddu utanríkismál af alvöru og krafti.

Þess vegna taldi ég snjallt að við tækjum til umfjöllunar tillögu um friðarumleitanir milli Ísraels og Palestínu. Þó að þau lönd séu fjarri okkur þá snertir það okkur á Norðurlöndunum hvern einasta dag, í fréttum, í vaxandi flóttamannastraumi og öðru á þessu svæði. Við ættum að fylgja fordæmi Sameinuðu þjóðanna og annarra sem hefðu hvatt ríkin til að viðurkenna Palestínu sem fullvalda og sjálfstætt ríki og að Ísraelsmenn og Palestínumenn yrðu hvattir, með stuðningi Norðurlanda, til að stuðla að friði og sáttum með friðarsamningum.

Það var umdeild tillaga og að sjálfsögðu ræddu menn þar hvort Norðurlöndin væru kannski komin út fyrir sitt svið, hvort það væri þeirra að ræða málefni þeirra ríkja sem stæðu hvað næst þeim — Rússland, samstarfið við baltnesku þjóðirnar, Hvíta-Rússland og fleira — þetta væri kannski fyrir utan. Tekist var á um þetta mál, sem ég held að hafi verið hollt fyrir Norðurlandaráð, innan ráðsins, innan forsætisnefndar. Sumir vildu vísa málinu frá. Ég hafnaði því og þar sem atkvæði forseta Norðurlandaráðs gilti tvöfalt í atkvæðagreiðslu var ákveðið að fara með málið í atkvæðagreiðslu á þinginu sem var haldið í Reykjavík fyrir nokkrum mánuðum, í lok október. Þar var ákveðið að samþykkja breytingartillögu um að Norðurlandaráð beindi þeim tilmælum til norrænna ríkisstjórna að þær legðu fyrir norrænu þjóðþingin tillögu um að þau viðurkenndu Palestínu sem fullvalda og sjálfstætt ríki og að Ísraelsmenn og Palestínumenn yrðu hvattir til, með stuðningi Norðurlanda, að stuðla að friði og sáttum með friðarsamningum sem byggist á alþjóðarétti og ályktunum Sameinuðu þjóðanna.

Einnig var samþykkt önnur breytingartillaga sem sneri að ákvörðunum um innri málefni Norðurlandaráðs. Sú breytingartillaga var á þessa leið:

„Norðurlandaráð samþykki að biðja þingmenn um að hvetja ríkisstjórnir sínar til að styðja tveggja ríkja lausn Ísraels/Palestínu og sem frjálst og fullvalda ríki þegar það getur orðið friðarferlinu til framdráttar.“

Mælt er fyrir samþykkt þessara tveggja breytingartillagna á þingi. Þær hlutu mikla umræðu en ákveðið var, með ríflegum meiri hluta, að samþykkja þær breytingartillögur og var það vel.

Á haustmánuðum hlutu málefni flóttamanna í Evrópu og á Norðurlöndum æ meiri athygli og á þinginu ákváðum við að nauðsynlegt væri að ræða þessi mál á milli landanna, á milli þingmanna og fá viðhorf forsætisráðherra allra Norðurlandanna til þessa mikilvæga málefnis. Það má segja að þessar umræður hafi verið ekki bara dýnamískar heldur gríðarlega gagnlegar og mikilvægar og ekki bara út af þeim vanda sem steðjar að Norðurlöndum öllum heldur líka fyrir þá samvinnu sem við viljum viðhalda í Norðurlandaráði. Fjölmörgum fyrirspurnum var beint að forsætisráðherrunum sem voru fúsir til svara og það sem stóð upp úr, að mínu mati, var hinn ríki vilji til að standa saman að einhvers konar lausn á þeim vanda.

Ég held að það sé mikilvægt að við rifjum upp það sem sagt var í Norðurlandaráði í október sl., þegar við lesum fregnir um nýja löggjöf í Danmörku og ákvarðanir í Svíþjóð. Ég vil enn á ný hvetja leiðtoga þessara ríkja, Norðurlandanna, til að setjast niður og ná fram sameiginlegri lausn á þessum mikla vanda. Það skiptir miklu máli fyrir Norðurlöndin öll, skiptir máli fyrir Ísland og því miður hafa verið stigin skref sem ég tel óráðleg á margan hátt varðandi löggjöfina í Danmörku og það þarf að ræða. Það þarf að ræða það á æðstu stigum.

Auk þess stóðum við fyrir málþingi um flóttamannavandann í aðdraganda þingsins. Þar fengum við færustu sérfræðinga frá Evrópusambandinu, frá OECD, til að upplýsa okkur um rót vandans, fá ýtrustu upplýsingar um hvernig málum væri háttað, ekki bara í Mið-Evrópu heldur líka í Suður-Evrópu og var það góður og mikilvægur fundur.

Fleiri málefni brunnu á okkur eins og loftslagsbreytingar, og fyrirhuguð loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í París setti mikinn svip á alþjóðaumræðuna á þingi Norðurlandaráðs. Þar sátu norrænir umhverfisráðherrar fyrir svörum í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Þar gáfu norrænu umhverfisráðherrarnir út yfirlýsingu, og ég tel að það hafi verið mikilvægt innlegg í loftslagsráðstefnuna, um að láta til sín taka varðandi losun gróðurhúsalofttegunda, varðandi styrki til framleiðslu jarðefnaeldsneytis og fjármögnun aðgerða í loftslagsmálum, allt þetta í tengslum við alþjóðlegt samkomulag í loftslagsmálum á COP21-ráðstefnunni í París, þ.e. loftslagsráðstefnunni. Ég held að þetta hafi meðal annars skapað grunn að því góða samkomulagi sem náðist á þeirri mikilvægu loftslagsráðstefnu en á sama hátt og þingið hér í Reykjavík var algjört tímamótaþing var loftslagsráðstefnan í París það einnig.

Á þinginu í haust, í október, tókst okkur líka að samþykkja umbótatillögur um breytingar á Norðurlandaráði, fækkun nefnda, tillögur sem miðuðu að því að gera ráðið allt saman effektífara og sýnilegra. Norðurlandaráð hefur sætt gagnrýni hvað það varðar að störf þingmanna hafi ekki verið nægilega áberandi og að allt það góða starf sem fer þar fram hafi ekki skilað sér út til þegna landanna og að fjölmiðlar hafi ekki sýnt því nægilegan áhuga. Allt þetta breyttist á þinginu nú í haust og mælingar sýna að umfjöllun fjölmiðla hefur aldrei verið meiri en nú frá þinginu í öllum löndum. Ég held að þar hafi hjálpað til að við vorum að ræða málefni líðandi stundar, við vorum að ræða mál sem skipta íbúa landanna gríðarlega miklu máli, kannski á annan veg en þau mál sem hafa verið mikið til umfjöllunar, eins og stjórnsýsluhindranir og fleira, hluti sem eru kannski aðeins fjarlægari en skipta þó gríðarlega miklu máli.

Við héldum stórkostlega verðlaunaafhendingu og RÚV á heiður skilinn fyrir sinn þátt í því. Við lögðum mikla áherslu á að verðlaunaafhendingin yrði í beinni útsendingu og hún var það, send beint til nokkurra landa. Önnur lönd sýndu hana um leið og tækifæri gafst til, það var mikið áhorf á verðlaunaafhendinguna og flestir sammála um að Íslendingum hefði tekist einstaklega vel til með skipulagningu á dagskránni. Við fengum glæsilega listamenn; Rúnar Freyr og Hilmar Örn Agnarsson, sem stýrðu hátíðinni, eiga heiður skilinn fyrir þátt sinn í því öllu og útsendingin var glæsileg.

Við vitum að verðlaun Norðurlandaráðs eru gríðarlega mikilvæg fyrir menningu landanna; kvikmyndaverðlaun, bókmenntaverðlaun, verðlaun fyrir barna- og unglingabækur, tónlistarverðlaun og umhverfisverðlaun. Ég lagði til að við mundum bæta við einum verðlaunum, sjónvarpsverðlaunum sem veitt yrðu fyrir besta sjónvarpsþáttinn. Norrænt sjónvarpsefni hefur rutt veginn og náð miklum árangri og vinsældum víða um heim. Við þekkjum öll þessa þætti og best að nefna Ófærð, sem er gríðarlega vinsælt hér á landi, en svo má nefna þætti eins og Forbrydelsen og Broen, samnorræna þætti sem hafa verið sýndir víða um lönd. Það er í raun fáránlegt að þessir þættir eða svona þáttagerð skuli ekki fá verðlaun frá Norðurlandaráði vegna þess að það gæti hjálpað þessum þáttum gríðarlega mikið, hjálpað innlendri dagskrárgerð í löndunum. Þættirnir ættu auðveldara með að komast í áhorf víðar þegar annaðhvort væri búið að tilnefna þá eða veita verðlaun. Ég get glaður sagt frá því að forsætisnefndin samþykkti einróma að hleypa þessu máli áfram. Sú nefnd sem hefur málið til umfjöllunar í dag, menningarmálanefndin, hefur einnig tekið afar jákvætt í að þessum verðlaunum verði bætt við og ég tel að þau verði Norðurlandaráði til mikils sóma.

Það eru vissulega mörg önnur mál sem ég hef ekki drepið á í ræðu minni, ég vil sérstaklega nefna aukinn vilja til samstarfs á norðurslóðum. Það skiptir okkur Íslendinga gríðarlega miklu máli og var hluti af formennskuáætlun minni sem forseti Norðurlandaráðs. Aukið samstarf á sviði heilbrigðismála er eitthvað sem ríkur vilji er til innan Norðurlandaráðs. Við sjáum fram á að kostnaður við heilbrigðiskerfi allra landanna mun aukast á næstu árum. Ég held að það geti skipt gríðarlega miklu máli að Norðurlöndin beiti sér í þeim málum, það getur gríðarlega mikill sparnaður verið fólginn í því að vinna saman.

Að lokum vil ég geta þess að þar sem ég fór fann ég fyrir því viðhorfi að samstarf á Norðurlöndunum væri eitthvað sem önnur lönd, önnur ríkjasambönd, vildu taka sér til fyrirmyndar. Horft er til Norðurlandanna og menn velta því fyrir sér hvað það er sem hefur skapað frið í 200 ár á milli landanna; hvernig við náum að byggja samstarf okkar á (Forseti hringir.) lýðræði og tjáningarfrelsinu þannig að það er margt sem við sjáum fram á.

Að lokum segi ég: Vonandi sjáum við fram á sterkara Norðurlandaráð og að þeirri vinnu sem okkur tókst að hefja á þessu ári verði fram haldið.