145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

norrænt samstarf 2015.

463. mál
[12:55]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir sína góðu ræðu. Ég hef í sjálfu sér engar fyrirspurnir og þarf ekki að grafast fyrir um eitt eða neitt úr máli hv. þingmanns. Ég er honum þakklátur fyrir það húmaníska viðhorf sem geislaði af ræðu hv. þingmanns og tel að það hafi verið ákaflega gott að hafa hann í þeim sessi sem hann var þegar mál kom þar til sem hann reifaði hér áðan og varðaði tillögu um samskipti Palestínu og Ísraels. Sannarlega fannst mér það vera tilefni til þess að Íslendingar gætu verið stoltir af því að þetta mál skyldi vera rætt og afgreitt með þeim hætti. Upphafsmaðurinn var, ef ég man rétt, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og það hefur komið fram að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, sem þá var forseti Norðurlandaráðs, greiddi sinn atbeina til þess að hægt væri að afgreiða þetta. Það var ekki sjálfgefið en það munaði um þátt íslenskra þingmanna í þessu, sem að lokum studdu þetta allir. Ég segi einfaldlega sem gamall áhugamaður og baráttumaður fyrir því að hlutur Palestínumanna verði réttur að mér þykir vænt um það að Íslendingar komi að málinu á þennan hátt.