145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

norrænt samstarf 2015.

463. mál
[13:00]
Horfa

Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sit í forsætisnefnd og kannski geta aðrir félagar mínir hér úr Norðurlandaráði svarað því hvort þetta hafi verið rætt í þeirra nefndum, en ef ég man rétt þá hefur þetta komið til tals. Ég held að ég fari rétt með. Það er því miður rétt, og kannski ekki því miður, það er bara þannig, að almannatryggingakerfi landanna eru ólíkt uppsett. Þetta er stórt vandamál. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að þetta sé eitt af stærri úrlausnaratriðum stjórnsýsluhindranaráðsins sem Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, stýrir. Ég veit að það hefur verið ríkur vilji innan Norðurlandaráðs til að reyna með einum eða öðrum hætti að laga þetta, að breyta. Eins og þingmaðurinn benti réttilega á sjálf eru tryggingakerfin ólíkt uppsett, en verið er að leita leiða til að greiða úr þessu. Ég vildi að ég gæti svarað betur en því miður hef ég ekki frekari upplýsingar.