145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

norrænt samstarf 2015.

463. mál
[13:04]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að brýna okkur í þessu stjórnsýsluhindranamáli. Þetta er mál sem hefur verið á borði Norðurlandaráðs mjög lengi. Í raun og veru eru alltaf að koma nýjar og nýjar stjórnsýsluhindranir sem við erum að reyna að takast á við vegna þess að það er svona eitt af stóru málunum í Norðurlandaráði, þ.e. að gera það eins auðvelt og hægt er að vera Norðurlandabúi og við getum skipst á að vera það í atvinnulegu tilliti, í tryggingamálum og velferðarmálum ýmiss konar.

Eins og formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, sagði er þetta mál stöðugt til umræðu og ákveðinn pirringur er meðal þingmanna í Norðurlandaráði frá öllum löndum hvað þessi mál virðast ganga hægt. Því vil ég þakka fyrir þessa brýningu og ég veit eins og hv. þingmaður hefur sagt að við munum láta enn meira til okkar taka hvað þetta varðar.

Mig langar að þakka Alþingi fyrir og þeim sem stóðu að Norðurlandaráðsþingi á Íslandi í haust. Ég tel að þar hafi verið vel að verki staðið og Íslandi til mikils sóma. Einnig vil ég minnast á af því að við vorum að tala um sjónvarp að það skipti mjög miklu að verðlaunaafhendingin var send út á RÚV í beinni útsendingu og til annarra Norðurlanda líka. Þetta er afar mikilvægur þáttur í því að gera starf Norðurlandaráðs sýnilegra gagnvart almenningi. Ég vona að framhald verði á því.

Brotið var blað í sögu Norðurlandaráðs fyrir tveimur árum þar sem farið var að fjalla um utanríkismál á vettvangi Norðurlandaráðs sem var mjög til bóta. Var það í kjölfar brota Rússa (Forseti hringir.) á alþjóðalögum og samþykktum. Ég fæ kannski að bera fram spurningu mína í seinna andsvarinu.