145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

norrænt samstarf 2015.

463. mál
[13:06]
Horfa

Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni og ítreka það hversu vel var staðið að, ekki bara þinginu öllu hér á Íslandi heldur líka verðlaunaafhendingunni. Við héldum þetta allt í Hörpu, en það gekk mikið á áður en þingið varð að veruleika og ég skal alveg viðurkenna að á tímabili hafði ég mjög miklar áhyggjur, sérstaklega af aðkomu þingsins sem mér fannst á tímabili draga lappirnar. En eins og okkur Íslendingum er nú tamt þá gekk þetta allt vel og kannski vonum framar og ég held að þingsins verði minnst sem tímamótaþings innan Norðurlandaráðs. Það er gott að það hafi verið hér á Íslandi.