145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

norrænt samstarf 2015.

463. mál
[13:31]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá skýrslu sem hér hefur verið flutt um norrænt samstarf undangengið ár. Ég átti þess kost að koma að starfi Norðurlandaráðs seint á þessu ári við forföll og síðar fráfall þáverandi varaforseta Norðurlandaráðs, hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, og taka við störfum hans í ráðinu. Það var í september sem ég kom að Norðurlandaráði og ég verð að segja að það hefur verið ánægjuleg reynsla og ný að eiga þess kost að taka þátt í þessu norræna samstarfi og leggja lið því málefnastarfi sem þar fer fram.

Þing Norðurlandaráðs, sem fór fram síðustu vikuna í október í Reykjavík, stóð fyrir dyrum þegar ég kom inn í ráðið og var síðan haldið með miklum glæsibrag í Hörpu þar sem 80–90 þingmenn, fulltrúar allra þjóðþinga Norðurlanda, mættu til samræðna og ákvarðanatöku um mikilvægustu verkefni norrænnar samvinnu á komandi missirum. Eins og fram hefur komið markaði það þing að vissu leyti þáttaskil því að þar var stigið inn á vettvang alþjóðlegra stjórnmála í mun ríkari mæli og með meira afgerandi hætti en áður hefur tíðkast með umfjöllun um málefni flóttamanna og viðbrögð hins norræna samfélags við þeirri stöðu sem knýr dyra í kjölfar stríðsátaka við Miðjarðarhaf. Málefni Palestínu komu líka til umfjöllunar og til ákvarðanatöku og þar voru mörkuð önnur mikilvæg þáttaskil, enda hefur starfsemi Norðurlandaráðs frá upphafi miðast frekar við það að fjalla um innri málefni Norðurlanda, samstarf þeirra á milli, en stöðu okkar í alþjóðlegu samhengi.

En þetta er óhjákvæmileg þróun, heimurinn breytist, samskipti og samfélagsmiðlar og örar samgöngur hafa áhrif á samskipti þjóða og má út landamæri og smækka hnöttinn. Þess vegna er óhjákvæmilegt að Norðurlandaráð geri sig í auknum mæli gildandi í alþjóðasamfélaginu.

Engum blöðum er um það að fletta að norræn samvinna hefur skapað Norðurlandabúum gríðarlega aukin lífsgæði á liðnum áratugum, bæði menningarlega séð, efnahagslega og samfélagslega, enda hefur stuðningur almennings við norræna samvinnu sjaldan verið meiri en einmitt nú. Það er afar mikilvægt að stórefla þetta samstarf, ekki síst í ljósi þeirrar hröðu alþjóðavæðingar sem samfélög okkar ganga nú í gegnum með öllum þeim nýju möguleikum sem sú þróun býður upp á.

Samfélög Norðurlanda eru vel menntuð, tæknivædd og auðug, efnahagslega og samfélagslega auðug, og eiga gríðarlega möguleika á því sviði og hafa mikið fram að færa, ekki síst ef þeim tekst að starfa saman sem öflug heild. Ég vil líka nefna norðurslóðasamstarfið sem verður sífellt þýðingarmeira í ljósi þeirrar þróunar sem hefur orðið hér við norðurskaut á síðustu árum. Því miður kemst það ekki mikið til tals í þeirri skýrslu sem gefin var hér áðan sem sýnir að mér finnst að menn séu kannski enn þá svolítið værukærir í þeim málaflokki. Norðurslóðirnar eru nefndar á bls. 4 í skýrslunni og fram kemur að þær hafi verið liður í formennskuáætlun Íslands en um þann málaflokk er ekki fjallað nánar í því plaggi, sem er miður vegna þess að þetta er málaflokkur með mjög vaxandi þyngd. Breytingarnar á norðurskautinu eru mun örari en nokkurn óraði fyrir að gæti orðið fyrir aðeins fáum árum.

Bráðnun heimskautaíssins og sú stóraukna skipaumferð sem af hefur hlotist um norðurpól, auðlindir sem stórþjóðir hafa augastað á undir hafsbotni og í jörðu, að ekki sé minnst á afdrif lífstofna í hafinu sem strandríkin byggja mörg afkomu sína á, allt þetta hefur gert mönnum æ ljósara hve mikið er í húfi fyrir vistkerfi og efnahag norðurslóðaríkja. Þessi þróun sem ég er að lýsa núna og er okkur flestum kunn hefur leitt til þess að æ fleiri ríki, stofnanir og samtök ásælast hlut í gæðum og möguleikum norðurslóða, ekki síst með auðlindanýtingu fyrir augum. Samhliða eru valdastjórnmálin farin að yfirskyggja samvinnu ríkja eftir því sem stórveldin gera sig meira gildandi í norðurslóðamálefnum.

Stórþjóðir hafa skilgreint norðurskautið sem hernaðarlega mikilvægt og hernaðarleg viðvera hefur færst þar í aukana. En að sama skapi hafa æ fleiri þjóðir séð ástæðu til að árétta fullveldi sitt og hagsmuni tengda nýtingu. Við svo búið verður hið norræna samfélag að taka sér stöðu og gæta hagsmuna Norðurlanda og samningsstöðu gagnvart umheiminum. Þess vegna er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að efla og bæta samstarf Norðurlanda í umhverfis- og öryggismálum á Norðurlöndum.

Sú staðreynd blasir líka við að þrátt fyrir smæð landanna hvers um sig — það minnsta er í kringum 50 þús. íbúar, það stærsta í kringum 10 milljónir — eru Norðurlöndin sameinuð meðal tíu öflugustu efnahagssvæða heims. Atvinnuþátttaka, jöfnuður, jafnrétti, umhverfisvitund og félagslegt réttlæti er á Norðurlöndum með því mesta sem gerist í heiminum. Vegna hins nána samstarfs og sameiginlegrar sögu og menningararfleifðar liggja viðhorf okkar og hagsmunir oftar en ekki saman. Það er brýnt að nýta þessa einstöku stöðu enn betur en gert er í dag og sækja fram.

Í Norðurlandaráði starfa flokkahópar og leggja fram sínar málefnaáherslur inn í starf ráðsins. Jafnaðarmenn á Norðurlöndum hafa sérstaklega látið sig varða mikilvægi hins norræna samstarfs, enda varðar það að verulegu leyti málefnaáherslur jafnaðarstefnunnar, ekki síst velferðarmál og samstarf sem eflir réttindi borgaranna á Norðurlöndum. Norðurlandaráðsþingið sem fór fram í Hörpu í október var ekki frábrugðið þing að því leyti. Við ræddum þar hugmyndir jafnaðarmanna um aukið norrænt samstarf í umhverfismálum, markaðssetningu Norðurlandanna sem áfangastaðar ferðamanna, sameiginlega sókn menningar- og atvinnulífs á erlenda markaði og aukið samstarf í öryggis- og utanríkismálum. Þar voru lagðar fram og samþykktar tillögur um aukið norrænt samstarf í baráttunni gegn heimilisofbeldi, ofbeldi gegn börnum og einelti hvers konar sem og tillögur um velferð aldraðra, varnir gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði og aukið öryggi í flugsamgöngum og vernd persónuupplýsinga á netinu svo eitthvað sé nefnt af þeim málefnasjóði sem jafnaðarmenn lögðu til umræðunnar og fengu í gegn.

Þetta er ekki síst ástæða þess hve norrænt samstarf er mikilvægt. Þess vegna verða menn að standa vörð um samstarfið, ekki bara standa vörð heldur efla það. Það er nú þannig að þrátt fyrir hátíðarræður ráðamanna um mikilvægi norrænnar samvinnu hafa fjárframlög þeirra til samstarfsins verið minnkuð umtalsvert á liðnum árum. Þeirri þróun þarf að snúa við. Það þarf að knýja ríkisstjórnir Norðurlandanna til þess að standa betur með samstarfinu. Norðurlöndin munu þurfa á því að halda á komandi árum að standa saman í stormviðrum veraldarviðburða sem nú þegar hafa fært okkar heimshluta vandmeðfarin verkefni að kljást við eins og dæmin sanna nú þegar í formi flóttamannavandans til dæmis. Norðurlöndin eiga að sækja fram á alþjóðavettvangi undir merkjum sameinaðra Norðurlanda. Við eigum hagsmuna að gæta því að sameinuð stöndum við sterkar að vígi en hvert í sínu lagi.