145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

ÖSE-þingið 2015.

467. mál
[13:59]
Horfa

Flm. (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér skýrslu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2015, en skýrslan liggur hér frammi á þskj. 750. Ég vísa til þess í öllum smáatriðum en ætla þó að stikla á stóru í starfsemi Íslandsdeildar ÖSE-þingsins.

ÖSE-þingið hefur komið saman frá árinu 1990 þegar samþykkt var að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, sem starfar á grundvelli Helsinki-sáttmálans frá árinu 1975, fengi þessa undirstofnun, þ.e. einhvers konar stofnun formlegs vettvangs fyrir þingmenn sem komi saman reglulega. ÖSE-þingið og sjálf Öryggis- og samvinnustofnunin eru þannig greinar af sama meiði.

Hlutverk ÖSE-þingsins er að hafa áhrif á stefnumótun og áherslur í starfi Öryggis- og samvinnustofnunarinnar, hafa eftirlit með og meta árangurinn af starfi stofnunarinnar. Verið hefur nokkur umræða á ÖSE-þinginu um þetta hlutverk og sýnist sitt hverjum um það og árangurinn af því markmiði. Ég ætla að koma inn á það síðar í máli mínu.

Ég ætla fyrst að víkja stuttlega að Íslandsdeildinni. Hún tók nokkrum breytingum á síðasta ári. Á fyrri hluta ársins voru aðalmenn Íslandsdeildarinnar Elsa Lára Arnardóttir, sem er formaður nefndarinnar og kemur frá Framsóknarflokki, Pétur heitinn Blöndal, sem var varaformaður, frá Sjálfstæðisflokki, og Guðmundur Steingrímsson frá þingflokki Bjartrar framtíðar. Pétur Blöndal féll frá síðastliðið sumar og tók þá sú er hér stendur sæti hans í Íslandsdeildinni. Um leið urðu breytingar á varamönnum deildarinnar.

ÖSE-þingið kemur saman reglulega til fundarhalda þrisvar á ári. Það eru yfirleitt haldnir vetrarfundir í febrúar, ársfundir að sumri og haustfundur í október. Þess utan er einnig haldinn að minnsta kosti einn samráðsfundur Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Á síðasta ári var einn slíkur haldinn.

Ég ætla að segja örlítið frá samráðsfundi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna sem haldinn var í maí á síðasta ári. Þann fund sækir að jafnaði formaður Íslandsdeildarinnar auk ritara. Helstu mál sem voru á dagskrá á þeim fundi voru nýjasta þróun mála innan ÖSE-þingsins og undirbúningur fyrir ársfundinn, en þá héldu tveir fræðimenn erindi um samstarf milli Norðurlandanna og Eystrasaltslanda á sviði öryggismála. Hins vegar voru til umræðu svæðisbundin átök í Miðausturlöndum og áhrif þeirra á öryggi í Evrópu. Eðli máls samkvæmt hafa málefni Úkraínu og samskipti við Rússland verið töluvert til umræðu á vettvangi ÖSE sem og annarra alþjóðastofnana. Á samráðsfundinum var rætt um viðleitni ÖSE til að miðla málum í Úkraínu. Formaður landsdeildar Litháens taldi alls ekki nóg að gert og sagðist vilja sjá Vesturlönd styrkja Úkraínu með vopnum og vinna með úkraínska hernum. Formenn sænsku og finnsku landsdeildanna sögðu slíkt afar erfitt af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna spillingar í Úkraínu og reynsluleysis hersins þar. Af því má sjá að sitt sýnist hverjum um ástandið eða vænlegar aðgerðir til að bæta ástandið í Úkraínu.

Ég ætla að víkja stuttlega að vetrarþingi ÖSE-þingsins sem haldið var í Vín í febrúar á síðasta ári, en þann fund sótti formaður Íslandsdeildarinnar auk Guðmundar Steingrímssonar. Meginefni þess fundar voru viðbrögð ÖSE við neyðarástandinu í Úkraínu og baráttan við hryðjuverk á ÖSE-svæðinu. Þá var einnig til umræðu samstarf til að bæta orkuöryggi og draga úr umhverfislegum og efnahagslegum áskorunum á ÖSE-svæðinu og einnig voru til umræðu mannréttindi farandverka- og flóttamanna.

Á fundinum fór fram sérstök umræða sem bar yfirskriftina „Samstarf til að bæta orkuöryggi og draga úr umhverfislegum og efnahagslegum áskorunum á ÖSE-svæðinu“. Pétur heitinn Blöndal, sem tilheyrði Íslandsdeildinni á þessum tíma, komst ekki á þann fund, en hann var sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE og lét sig mjög varða fjármál ÖSE. Hann sendi stjórnarnefndinni skriflega skýrslu á þennan fund um störf sín þar sem hann ítrekaði gagnrýni sína á fjárhagsáætlun ÖSE sem hann hafði sett fram reglulega í nokkur ár, og gerði sérstaka athugasemd við fjárhagsáætlun ÖSE fyrir árið 2015, þar á meðal aukin framlög til skrifstofu ÖSE í Vín á kostnað framlaga til vettvangsskrifstofa sem eru til staðar í einstökum löndum.

Ársfundur þingsins var haldinn að sumri til í Helsinki. Meginviðfangsefni þess fundar var hlutdeild Rússlands í átökunum í Úkraínu, flóttamannavandinn á Miðjarðarhafi, kynferðisofbeldi og misnotkun á varnarlausum konum og börnum og rík þörf á endurbótum á starfsemi ÖSE. Það bar helst til tíðinda á þessum fundi að sendinefnd Rússlands á ÖSE-þinginu hætti við þátttöku á fundinum nokkrum dögum fyrir fundinn eftir að utanríkisráðuneyti Finnlands hafði neitað nokkrum þingmönnum nefndarinnar um vegabréfsáritun til Finnlands vegna þess að þeir voru á ferðabannlista Evrópusambandsins, sem er hluti af refsiaðgerðum sambandsins gegn Rússlandi vegna íhlutunar Rússlands í átökunum í Úkraínu.

Fyrirkomulag funda ÖSE-þingsins er þannig að haldinn er einn sameiginlegur fundur allra ráðstefnugesta eða þingmanna, en þess utan eru fundir í þremur málefnanefndum sem starfa á ÖSE-þinginu. Sú fyrsta er nefnd um stjórnmál og öryggismál. Önnur er nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni og umhverfismál. Sú þriðja er um lýðræðis- og mannréttindamál. Á ársfundinum í Helsinki tóku þessar þrjár málefnanefndir fyrir ákveðin mál með áherslu á yfirskrift ársfundarins sem var Helsinki +40. Í ályktun nefndar um stjórn- og öryggismál var Rússland hvatt til að endurskoða úrsögn sína úr samningi um hefðbundinn herafla í Evrópu og virða skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum, ásamt því að hætta við innlimun Krímskaga og borgarinnar Sevastopol. Í ályktun nefndar um lýðræðis- og mannréttindamál voru fordæmdar viðvarandi ofsóknir og fangelsun blaðamanna og verndara mannréttinda í nokkrum aðildarríkjum ÖSE. Fjölmiðlafrelsi hefur verið nokkuð til umræðu á öllum fundum ÖSE-þingsins á síðasta ári. Einnig var lýst yfir áhyggjum af hvarfi fjölda gagnrýnenda stjórnvalda innan ÖSE-svæðisins og skorti á upplýsingum um þá og kallað eftir að stjórnvöld veittu allar mögulegar upplýsingar um afdrif þessara einstaklinga.

Í ályktun nefndar um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál voru aðildarríki hvött til að vinna áfram að því að draga úr loftslagsbreytingum og að samningaviðræðum í átt að nýjum alþjóðlegum loftslagssamningi með bindandi takmörkunum á losun gróðurhúsalofttegunda til samþykktar á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París sem fram fór síðar, í desember á síðasta ári.

Síðasti fundur ÖSE-þingsins var haldinn í Úlan Bator í Mongólíu í október. Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn hv. þm. Guðmundur Steingrímsson og sú er hér stendur auk ritara Íslandsdeildarinnar. Ráðstefnu haustfundarins var skipt upp í þrjá hluta eftir málefnaáherslum nefnda þingsins, eins og ég hef áður lýst. Í fyrsta hluta, sem tilheyrði vídd stjórn- og öryggismála, var sérstök áhersla á svæðisbundið öryggi og baráttuna gegn hryðjuverkum og mansali á ÖSE-svæðinu. Þá var ástandið í Úkraínu sérstaklega til umræðu, eins og á hinum tveimur fundum þingsins. Á þessum haustfundi kom fram sérleg gagnrýni sendinefndar Rússlands og forseti neðri deildar rússneska þingsins gagnrýndi þá ákvörðun finnskra stjórnvalda að neita þingmönnum sendinefndar Rússlands um vegabréfsáritun til landsins fyrir þátttöku í ársfundi ÖSE- þingsins í júlí 2015. Annar hluti ráðstefnunnar tilheyrði efnahags- og umhverfismálum og var áhersla lögð á efnahagslegar áskoranir, fæðuöryggi og áhættustjórnun á ÖSE-svæðinu. Í þeim umræðum gagnrýndi sú er hér stendur viðskiptabann Rússlands gegn Vesturlöndum og vakti athygli á mikilvægi frjálsra viðskipta, sérstaklega þegar kemur að fæðuöryggi. Var þar nefnt að fá ef nokkur ríki gætu tryggt borgurum sínum fæðuöryggi til langframa án frjálsra viðskipta við önnur ríki. Var sérstaklega gagnrýnt að ríki eins og Rússland legði bann við innflutningi á matvælum frá Evrópu og Bandaríkjunum vegna aðgerðanna í tengslum við ástandið í Úkraínu. Í því sambandi var sérstaklega nefnt að augljóst væri að viðskiptaþvinganir Rússlands brytu gegn reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Því var svarað af hálfu fulltrúa Rússlands á haustráðstefnunni með því að Rússland hefði verið neytt til þess að bregðast við refsiaðgerðum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Þannig bæru Vesturlönd ábyrgð á minnkandi fæðuöryggi og óánægju með innflutningsbann Rússa. Það er áhugavert í ljósi þess að með því viðurkenndi fulltrúi Rússlands í raun að viðskiptaþvinganir Rússlands gagnvart Vesturlöndum væru í raun hefndaraðgerð vegna þeirra refsiaðgerða sem Evrópusambandið, Bandaríkin og fleiri ríki höfðu áður haft uppi gegn Rússlandi. Slíkar hefndaraðgerðir eru einmitt sérstaklega bannaðar í reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Að lokum var þriðji hluti haustráðstefnunnar tileinkaður fjölmiðlafrelsi, trúfrelsi og almennum mannréttindum. Var lögð áhersla á að flóttamannavandinn væri alþjóðlegur og að fleiri en Evrópubúar þyrftu að ræða þann vanda sem steðjaði að Evrópu í þeim efnum.

Samhliða haustfundinum stóð Íslandsdeildin fyrir fundi þingmanna Norðurlanda og Eystrasaltsríkja með fulltrúum samtaka um mannréttindi og fjölmiðlafrelsi í Mongólíu. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson stýrði fyrir hönd Íslandsdeildar þessum hluta ráðstefnunnar og fengu þingmenn Norðurlanda þar ágæta innsýn inn í stöðu mála í Mongólíu, sem er mjög áhugaverð í ljósi þess að Mongólía er eitt þeirra ríkja sem hafa tiltölulega stutta lýðræðissögu og er enn þá að fóta sig í þeim efnum.

Virðulegur forseti. Ég ætla að láta hér staðar numið og vísa til skýrslunnar eins og hún liggur fyrir. Ég vildi þó líka nefna það, af því að ég minntist á það í upphafi, að samstarf ÖSE og ÖSE-þingsins hefur verið gagnrýnt. Nokkur vilji er innan ÖSE-þingsins, einkum meðal þingmanna Norðurlanda, til þess að taka það fastari tökum og láta ÖSE-þingið beita sér í meira mæli bæði hvað málefni varðar og einnig með tilliti til aðhaldshlutverks ÖSE-þingsins gagnvart ÖSE-stofnuninni. Menn hafa um það áform að á þessu ári verði gerð gangskör að því að auka þetta samstarf og auka vægi ÖSE-þingsins gagnvart stofnuninni sjálfri.

Undir skýrsluna ritum við, fulltrúar þingsins í Íslandsdeildinni; sú er hér stendur, hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir, sem er formaður, og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, varaformaður Íslandsdeildarinnar.