145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

NATO-þingið 2015.

474. mál
[14:39]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það undrar mig að hv. þingmaður skuli ekki upplýsa um gleði sína yfir því að það ríkir eindrægni í þessum hópi. Þá er fyrst að undirstrika það fyrir hv. þingmanni að NATO-þingið hefur engin ítök um raunverulega framkvæmd NATO á ákvörðunum sínum. Á þinginu sitja fulltrúar þjóðþinga og hlutverk þingsins hefur frá upphafi verið fyrst og fremst að efla samráð og samvinnu þjóðþinga, miðla upplýsingum um þætti sem varða öryggis- og varnarmál. Það er alsiða að þar komi upp hörð gagnrýni á margt sem NATO hefur gert þótt vissulega hafi því ekki verið til að dreifa varðandi atburði síðasta árs. Ég minnist þess á sínum tíma þegar ég sat þar fyrir 2007 þegar menn voru í ýmiss konar vopnaskaki um heiminn, m.a. í nafni NATO, að harkalega var tekist á um það á þingum NATO.

Eindrægnin sem hv. þingmaður innir mig eftir birtist t.d. þegar þingmenn fluttu mál sitt á fundum og ráðstefnum á vegum NATO-þingsins þar sem þessi deila og viðskiptaþvinganirnar komu til umræðu. Það ríkti af okkar hálfu einhugur um þær, þ.e. menn voru ekki að deila, það voru ekki mismunandi skoðanir uppi um það. Þótt ég hafi verið krítískur á framkvæmd viðskiptaþvingananna og skort á samráði við utanríkismálanefnd, sérstaklega á hinum fyrri hluta þess máls, og það sem ég innan utanríkismálanefndar hef kallað skort á árvekni og undirbúningi af hálfu íslenska framkvæmdarvaldsins, þá var ég þeirrar skoðunar að með langtímahagsmuni Íslands að leiðarljósi væri þetta rétt.

Ég svara síðan spurningunni um Úkraínu og Rússland í síðara andsvari mínu.