145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

NATO-þingið 2015.

474. mál
[14:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er misskilningur hjá hv. þingmanni að ég gleðjist ekki yfir samstöðu þingmanna í Íslandsdeild NATO-þingsins. Það gleður mig verulega að hv. þingmenn Þórunn Egilsdóttir, Össur Skarphéðinsson og Birgir Ármannsson nái vel saman í sendinefnd Íslands á þetta þing því að það er alltaf gleðiefni og gott að fólki semji vel.

Varðandi viðskiptaþvinganirnar gæti ég svo sannarlega tekið undir með hv. þingmanni varðandi ýmislegt sem liggur þar í aðdragandanum. Eins og ég hef oft sagt þegar þessi mál hefur borið á góma að undanförnu og kröfur hafa verið uppi um að kúvenda stefnu Íslands í þessum efnum, þá hefðu menn betur vitað hvað þeir voru að fara út í í byrjun og verið búnir að leggja það vel niður fyrir sér og ákveða að þeir væru tilbúnir til að taka þeim óþægindum og því tapi sem kynni að leiða af því að fara út í slíkar aðgerðir. Það eiga menn auðvitað að reyna að gera ef þeir ætla á annað borð í slíkan leiðangur en ekki vera eins og kálfar á vori og rjúka til og skella þessu á, fara í einhverjar hetjuferðir austur í Kænugarð og sitja svo allt í einu uppi með baklandið í uppnámi þegar til stykkisins kemur og þetta er farið að hafa áhrif, gagnkvæm neikvæð áhrif eins og oft vill verða með viðskiptaþvinganir af svona tagi, þó auðvitað alveg sérstaklega ef hagkerfin liggja nálægt hvert öðru og eru dálítið samtvinnuð í viðskiptum. Það rann auðvitað upp fyrir Evrópu að menn geta haft allar sínar skoðanir á Rússum og framferði þeirra, en það breytir ekki hinu að menn kaupa eiginlega allt sitt gas frá Rússum, olíuvörur, og eru þeim býsna háðir og viðskiptum við þá um hrávörumarkaði og síðan aðrir aðilar um útflutning eins og vinir okkar Finnar sem verða fyrir talsverðum búsifjum, finnskur landbúnaður, af því að Rússlandsmarkaður er þeim nú lokaður.

Að öðru leyti bíð ég spenntur eftir svari hv. þingmanns við seinni spurningunni um það hvort Vesturlönd, Bandaríkin, (Forseti hringir.) Evrópusambandsríkin, kunni að bera nokkra ábyrgð líka á upplausnarástandinu í Úkraínu rétt eins og við erum sammála um að þau gera gagnvart ástandinu í Írak og Sýrlandi.