145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

NATO-þingið 2015.

474. mál
[14:44]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er hugsanlegt að Evrópusambandið og Bandaríkjamenn hafi ekki teflt þetta vel í upphafi. Það er vel hugsanlegt að ýtt hafi verið um of undir væntingar Úkraínubúa um framtíð sem var kannski mjög erfitt að búa til með þeim hætti sem menn voru bersýnilega að teikna upp innan vébanda Úkraínu. Mér þætti svo út af fyrir sig fróðlegt að heyra hv. þingmann sem hefur mikla þekkingu á þessum málum útskýra það sjónarmið sitt betur með hvaða hætti hann telur að Evrópusambandið og þá eftir atvikum önnur vestræn ríki beri ábyrgð á því hvernig þessar deilur spruttu upp. Ég bíð með minn dóm yfir þeim málflutningi þangað til ég heyri hann.

Hitt liggur algjörlega ljóst fyrir að hvað sem líður deilum í Austur-Úkraínu þá var partur af Úkraínu tekinn og innlimaður. Menn geta haft skoðanir á því hverjar séu hinar sögulegur forsendur fyrir því. Ég hef heyrt úr þessum ræðustóli skoðanir sem eru allt öðruvísi en mínar. Það breytir ekki hinu að engum hefur tekist að sýna fram á annað en að alþjóðalög hafi verið brotin. Við þær aðstæður er ekki hægt annað en að alþjóðasamfélagið bregðist við með einhverjum hætti. Það hvernig það brást við er síðan undirorpið gagnrýni. Ég hef rakið gagnrýni mína á það þótt ég sé sammála því að viðbragða hafi verið þörf.

Hv. þingmaður sat í ríkisstjórn þar sem að minnsta kosti tvisvar voru teknar ákvarðanir um utanríkismál sem skiptu máli og gátu haft áhrif, annars vegar viðurkenning á fullveldi Palestínu og hins vegar fríverslunarsamningur við Kína. Í bæði skiptin gerði utanríkisráðuneytið áhættumatsskýrslu þar sem var farið yfir til hvers það gæti hugsanlega leitt í samskiptum við önnur voldug ríki. Í þessu tilviki virðist sem menn hafi tekið ákvörðun algjörlega blint án þess að gera sér grein fyrir (Forseti hringir.) því að það væri vel mögulegt og meira að segja mjög líklegt að að því drægi að Rússar mundu með einhverjum hætti beita mótaðgerðum, alveg eins og þeir gerðu (Forseti hringir.) frá upphafi gagnvart öðrum þjóðum.