145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

NATO-þingið 2015.

474. mál
[14:49]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því sem hv. þingmaður segir að hér sé um að ræða gjörólíkt eðli og inntak aðgerða. Ég notaði orðið viðskiptaþvinganir um þær aðgerðir sem Vesturlönd gripu til gagnvart Rússum vegna þess að þannig er það nefnt í mæltu máli. Íslenska þýðingin á ensku orðunum, með leyfi hæstv. forseta, „trade sanctions“, er yfirleitt í daglegu máli Íslendinga viðskiptaþvinganir. Það eru orðin sem framkvæmdarvald Íslands hefur notað um þetta og þess vegna nota ég það. En hv. þingmaður tók kannski eftir því að ég kallaði aðgerðir Rússa mótaðgerðir, m.a. vegna þess að ég vil ekki fella þessar aðgerðir undir sama hatt. Þær eru ólíkar eins og hv. þingmaður sagði.

Það sem ég var hins vegar að gagnrýna var að hvað sem menn kalla þetta, hvort sem menn kalla þetta hefndaraðgerðir, brot á alþjóðalögum eða hvað eina, þá mátti næstum því hver heilvita maður gera ráð fyrir því að það kæmi að því að Rússar kynnu að íhuga gagnaðgerðir. Þannig var það rætt annars staðar en á Íslandi. Ísland var með seinni skipunum til þess að sæta þeim aðgerðum. Það er hægt að færa fram ákveðnar skýringar á því sem m.a. hafa verið færðar fram af hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni og lúta að stöðu innan lands hjá Rússum sjálfum.

Það breytir ekki hinu að ég tel að það hafi verið rétt að taka með þessum hætti þátt í aðgerðum af hálfu Vesturlanda, en ég tel að undirbúningur þeirra hér innan lands hafi ekki verið nógu góður. Ég hef hins vegar ekki verið að berja á hæstv. utanríkisráðherra vegna (Forseti hringir.) þess að ég hef ekki talið heppilegt að í ljós kæmi að það væri einhvers konar ágreiningur um það hvernig að þessum aðgerðum var staðið.