145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

NATO-þingið 2015.

474. mál
[14:51]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel mjög mikilvægt að menn kalli þetta ekki sömu nöfnum, viðskiptaþvinganir Rússlands annars vegar sem beinast sérstaklega gegn almenningi í Rússlandi en einnig gegn frjálsri verslun milli ríkja og hins vegar refsiaðgerðir Vesturlanda gagnvart Rússlandi. Hv. þingmaður nefndi að þetta væri kallað „trade sanctions“ á ensku, það er reyndar ekki rétt. A ensku, með leyfi forseta, er talað um „sanctions“ eða „restrictive measures“, sem eru þvingunaraðgerðir. Ég tel mjög mikilvægt að stjórnmálamenn og stjórnvöld hér á landi geri skýran greinarmun á.

Ég er fyrir mitt leyti algjörlega andvíg viðskiptaþvingunum eða hvers kyns hömlum á viðskiptafrelsi. Ég get tekið sem dæmi viðskiptabann Bandaríkjanna til áratuga gagnvart Kúbu sem hefur ekki þjónað nokkrum tilgangi öðrum en að framlengja það ófremdarástand sem þar hefur verið til staðar.

Hins vegar þegar menn horfa fram á svo kinnroðalaust brot á alþjóðalögum og mannréttindabrotum eins og fram fór af hálfu Rússlands í Úkraínu, þá tel ég eðlilegt að lýðræðisríki grípi til einhverra aðgerða. Og er það ekki rétt, hv. þingmaður, að það er ekkert nýmæli að Ísland taki þátt í aðgerðum af þessu tagi? Á vefsíðu utanríkisráðuneytisins er listi yfir allar þær þvingunaraðgerðir, eins og þær eru kallaðar þar, sem Ísland hefur tekið þátt í á hendur fjölmörgum ríkjum. Áður hefur verið nefnt Íran. Hér er Mjanmar, Sómalía, Úkraína er þarna sérstaklega útlistað. Erítrea, frysting fjármuna. Hér er skilgreint nákvæmlega í hverju þessar aðgerðir felast. Ekki í neinu tilviki beinast þessar aðgerðir að almennum borgurum eða frjálsum viðskiptum með vörur (Forseti hringir.) og þjónustu af hinu hefðbundna tagi, heldur að mjög afmörkuðum þáttum sem koma við kaunin á glæpamönnum í viðkomandi ríkjum.