145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

NATO-þingið 2015.

474. mál
[15:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að hafa dýpkað að minnsta kosti minn skilning á afstöðu hans til þessara mála. Ég verð að vera honum sammála um það að ég lít hvorki á hann né mig sem sérfræðing, sérstaklega ekki um tildrög þessarar atburðarásar. Ég hygg að ég geti líka verið honum sammála um að kynt hafi verið undir þessari atburðarás utan frá og rifja hér upp fyrir honum og öðrum merkilegt símtal sem lekið var og enginn veit hver lak sem tekið var upp, þar sem á öðrum endanum var fyrrverandi kollegi minn, Urmas Paet, sem var utanríkisráðherra á sínum tíma í Eistlandi þar sem hann er í nokkru uppnámi að lýsa upplýsingum sem hann hefur fengið sem bentu til þess að það sem við hefðum endranær kallað morðsveitir hefðu verið að verki. Ég treysti mér ekki til þess að segja hvaðan þær komu. Komu þær utan frá, eins og draga mátti ályktanir af af umfjöllun síðar? Ég treysti mér ekki til að skera úr um það. Eða voru þær úr röðum þeirra sem hv. þingmaður kallaði fasísk element? Það er alveg klárt að eftir atburðina á þessu torgi komu slík element meðal annarra flokka, urðu partar af ríkisstjórninni. En hver urðu síðan afdrif þeirra í kosningunum? Þeir fengu 1 eða 2%, hurfu í burtu, þeim var fleygt í burtu af þeim sem voru íbúar þessa lands.

Ég treysti mér heldur ekki, þrátt fyrir sérstakar sögulegar forsendur og það hversu skamman tíma þessi skipan mála var á með Krím, að taka undir með þeirri afstöðu sem hv. þingmaður lyftir hér. Menn hafa gert það áður í þessum ræðustóli. Ég treysti mér ekki til þess.

Ég er þeirrar skoðunar að þarna hafi verið brotið prinsipp varðandi Krím, þetta var innlimun á parti úr öðru ríki. (Forseti hringir.) Ég treysti mér ekki til þess að segja neitt um með hvaða hætti þessar kosningar fóru fram en ég spyr hv. þingmann: Ef hann telur eitthvert réttlæti í því, (Forseti hringir.) er þá bara ekki næsta skref að í Donbass-héraðinu verði líka haldin atkvæðagreiðsla sem þarlendir sem ráða ríkjum stjórna og taka væntanlega sömu niðurstöðu? (Forseti hringir.) Á þá kannski að hluta það niður? Á síðan að gera það sama í Transnistríu í Moldóvu? Ég gæti talið upp fleira. Menn verða að passa sig á svona röksemdafærslu.