145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

NATO-þingið 2015.

474. mál
[15:10]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst gott að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi sagt það algjörlega skýrt undir lok ræðu sinnar áðan að hann væri ekki að réttlæta það sem gerðist á Krím. Það mátti draga þá ályktun af fyrri ræðu hv. þingmanns að hann væri þeirrar skoðunar að þar hefði þeim forsendum verið fullnægt sem segja má að hvíli í alþjóðarétti um það hvenær hægt er í krafti þeirra að brjóta skika af ríki frá og gera að sjálfstæðu ríki eða beinlínis flytja yfir innan vébanda annars ríkis. Það var það sem gerðist þar. Getum við þá ekki að minnsta kosti verið sammála um að jafnvel þótt hv. þingmaður segi, og ég dreg það ekki beinlínis í efa, að meiri hlutinn hafi viljað það? En hvaða fastar vísbendingar eða sannanir höfum við í höndum sem undirstrika það? Eigum við að treysta atkvæðagreiðslu sem ekki lýtur eftirliti alþjóðlegra stofnana eins og yfirleitt annars staðar? Kosningin í Skotlandi laut til dæmis eftirliti alþjóðlegra stofnana. Það hlýtur að vera forsenda. Það er ekki óeðlilegt að menn spyrji þá þeirrar spurningar: Mega menn þá bara halda áfram?

Ég veit að það verða allt öðruvísi sögulegar forsendur fyrir Donbass-svæðinu í austurhluta Úkraínu en Krím beinlínis, en það breytir ekki hinu að þar eru stjórnvöld sem eru í mikilli andstöðu við stjórnvöld Úkraínu sem ríkis. Það er alveg klárt að þar eru þing sem njóta stuðnings Rússa, fá nánast þaðan tæki og menn til þess að passa upp á sig, lúta ákveðinni forsjá þar. Eigum við að treysta þeim fyrir því að halda slíkar þjóðaratkvæðagreiðslur? Ég held að sé ekki hægt að ræða málin á þeim grunni. Ég er þeirrar skoðunar að fyrir ríki eins og Ísland, (Forseti hringir.) sem er lítið ríki, og fyrir öll smáríki þurfi menn alltaf að stappa niður fæti þegar kemur að því að menn eru að brjóta lög og reglur um landamæri. Ég tók eftir því að hv. þingmaður talaði eins og það (Forseti hringir.) léki einhver vafi á. Í mínum augum er það ekki, þetta er prinsippmál.