145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

norðurskautsmál 2015.

475. mál
[15:15]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norðurskautsmál fyrir árið 2015. Við leggjum í inngangi áherslu á þau mál sem fjallað var um á vettvangi þingmannanefndarinnar. Nefndin lagði að venju ríka áherslu á umhverfismál og horfði sérstaklega til loftslagsbreytinga á svæðinu. Nefndarmenn kynntu sér og ræddu seinna bindi skýrslu um mannlífsþróun á norðurslóðum, sem kom út í lok árs 2014. Áhersla var meðal annars lögð á aðlögun samfélaga á svæðinu í ljósi breyttra aðstæðna sem skapast með loftslagsbreytingunum. Í skýrslunni er sjónum beint að mikilvægi þess að skilja þarfir íbúa norðurslóða, menntun, heilbrigði og efnahagsmál svo eitthvað sé nefnt.

Á tveggja ára fresti heldur þingmannanefndin ráðstefnu um norðurskautsmál og var fyrsta slíka ráðstefnan haldin í Reykjavík árið 1993. Á ráðstefnum þingmannanefndarinnar kemur saman stór hópur þingmanna og sérfræðinga frá ríkisstjórnum, fræðasamfélögum og félagasamtökum sem láta sig málefni norðurslóða varða. Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er jafnframt að fylgja eftir samþykktum þeirrar ráðstefnu og var lögð áhersla á það verkefni á liðnu ári.

Í yfirlýsingu elleftu ráðstefnu þingmannanefndarinnar, sem haldin var í Whitehorse í Kanada í september 2014, var tilmælum beint til ríkisstjórna á norðurskautssvæðinu, Norðurskautsráðsins og stofnana Evrópusambandsins. Var meðal annars kallað eftir aukinni viðleitni til að draga úr loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra fyrir íbúa norðurskautsins. Einnig var kallað eftir stuðningi við uppbyggingu innviða samfélagsins, eins og flugvalla, hafna, þjóðvega, sem styðja við þróun ferðaþjónustu og efnahagslíf heimamanna, auk annarrar umhverfisvænnar og sjálfbærrar starfsemi. Þá var hvatt til þess að skoðaðir yrðu möguleikar á frekari bindandi samningum milli norðurskautsþjóðanna.

Fulltrúar Íslandsdeildarinnar lögðu á þeirri ráðstefnu áherslu á mikilvægi þess að standa þyrfti vörð um rétt íbúa norðurslóða til að nýta auðlindir sínar með sjálfbærum hætti, eflingu Norðurskautsráðsins, umhverfismál og öryggis- og björgunarmál á hafi. Í þessu samhengi vil ég sérstaklega nefna, virðulegi forseti, að fulltrúar Íslandsdeildarinnar eru ásamt mér hv. þingmenn Líneik Anna Sævarsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir. Þá fengum við inn í yfirlýsinguna áhersluatriði okkar varðandi rétt íbúa til sjálfbærrar nýtingar á auðlindum þeirra svæða sem þeir búa á. Það hefur dálítið kristallast í umræðunni á þessum fundum mikilvægi þess að virða rétt frumbyggjanna, rétt þeirra til lífs og viðurværis, á því svæði sem þeir búa. Eitt það mikilvægasta í okkar huga og kemur fram í þeim áhersluatriðum sem við komum inn í samþykktina er að réttur þeirra til sjálfbærrar nýtingar auðlindanna sé viðurkenndur. Það hefur borið á því að svo sé ekki. Það birtist okkur fyrst og fremst í því að viðskipti með afurðir frá þessum þjóðum, t.d. af sel og hval, hafa verið bönnuð.

Menn hafa haft miklar áhyggjur af því hvernig félagsleg þróun hefur verið hjá frumbyggjum þessara svæða og þeim félagslegu vandamálum sem hafa komið upp við að aðlagast nútímanum og okkar vestræna menningarheimi. Ég er á þeirri skoðun að þau úrræði sem verið er að tala um og eru notuð til að nálgast þessi vandamál séu í raun ekki þau bestu sem við getum farið í, þ.e. að reyna með félagsfræðilegri ráðgjöf og sálfræðilegri meðferð og fleiru að aðlaga þessi brot frumbyggja að því sem við þekkjum úr okkar daglega lífi. Ég tel að það væri miklu heppilegra að við reyndum að byggja upp möguleika frumbyggja á mismunandi svæðum til þess að þróa nýtingu með sjálfbærum hætti á þeim auðlindum sem eru til staðar á þessum erfiðu svæðum í byggðalegu tilliti. Það gerum við augljóslega ekki með því að loka síðan öllum mörkuðum og möguleikum þeirra á að selja afurðir sínar. Það mundum við gera með því að kenna þeim og innleiða með þeim nútímatækni við veiðiaðferðir og vinnslu á þessum afurðum þannig að þær gætu orðið eftirsóttar um allan heim.

Þetta var áhersluatriðið sem við töluðum fyrir og hefur fallið í góðan jarðveg almennt séð innan þeirra ríkja sem eiga fulltrúa á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál. Af öðrum atriðum má nefna að mikið var rætt um opnun nýrra siglingaleiða og öryggismál á sjó. Það er nokkuð sem við höfum lagt mikla áherslu á, ásamt bættum efnahags- og lífsskilyrðum almennt á norðurslóðum.

Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en nokkur samvinna norðurskautsríkja hófst þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 markaði hins vegar upphafið að stofnun þingmannanefndarinnar sem var formlega sett á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál, sem haldin er á tveggja ára fresti eins og ég kom inn á. Meginviðfangsefni nefndarinnar eru að skipuleggja þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál, fylgja eftir samþykktum hennar og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins.

Ísland hefur gegnt formennsku einu sinni í þessari nefnd. Það var undir lok formennskutíðar Íslands árið 2004 sem gefin var út skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðinu. Skýrslan er fyrsta svæðisbundna allsherjarrannsóknin á loftslagsbreytingum sem birt hefur verið eftir að samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var gerður. Skýrslan vakti mikla athygli á sínum tíma og hefur verið notuð sem eins konar grunnur að alþjóðlegri umræðu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum.

Á síðari missirum hefur Norðurskautsráðið sinnt í auknum mæli verkefnum sem miða ekki eingöngu að því að vega og meta mengunarhættu og slíka þætti, heldur einnig að leita leiða til þess að draga úr mengun á norðurslóðum og auka samstarf og skuldbindingar ríkjanna.

Á leiðtogafundi Norðurskautsráðsins í Nuuk í maí 2011 var undirritaður fyrsti bindandi samningur aðildarríkjanna um leit og björgun á norðurslóðum. Samningurinn er sögulegur í því tilliti að þar er um að ræða fyrsta alþjóðasamninginn milli aðildarríkja Norðurskautsráðsins.

Í þessari skýrslu er farið yfir skipan Íslandsdeildarinnar en formaður sækir fundi þingmannahópsins, eða stjórnarinnar, og síðan fara aðrir fulltrúar eða öll sendinefnd íslenska þingsins á þessa ráðstefnu sem haldin er annað hvert ár.

Fundir þingmannanefndarinnar um norðurskautsmál á árinu 2015 voru þrír, í Washington 13. mars, í Reykjavík í maí og síðan í Strassborg um miðjan desember. Á fundinum sem var haldinn í Reykjavík fóru Stefán Haukur Jóhannesson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, yfir stefnu Íslands í málefnum norðurslóða og helstu niðurstöður ráðherrafundar Norðurskautsráðsins sem haldinn var í Iqaluit 24. apríl 2015. Þá kynnti hann einnig helstu áhersluatriði í stefnu Íslands frá árinu 2011 um málefni norðurslóða sem samþykkt var samhljóða á Alþingi. Stefnan miðar að því að tryggja hagsmuni Íslands með tilliti til áhrifa loftslagsbreytinga, umhverfis- og auðlindamála, siglinga og samfélagsþróunar auk þess að efla tengsl og samstarf við önnur ríki og hagsmunaaðila um málefni svæðisins.

Hugi Ólafsson, sem er formaður vinnuhóps Norðurskautsráðsins um vernd gegn mengun hafsins á norðurslóðum, fór yfir verkefni vinnuhópsins sem hann er formaður fyrir. Hann benti nefndarmönnum á að 70% af skilgreindu svæði norðurslóða væri hafsvæði og að sú mikla hopun hafíss sem ætti sér stað gæti leitt til íslausra svæða á sjó að sumri til fyrir miðja öldina.

Á fyrrnefndum fundi stóð nefndin fyrir því að bjóða fulltrúum í heimsókn í Nesjavallavirkjun. Ég nefni það sérstaklega vegna þess að upplifun fólks af því hvernig við nýtum með sjálfbærum hætti orkuauðlindir landsins til raforkuframleiðslu og eins til að hita upp hús okkar var áhugaverð. Þetta vakti mikla athygli en eins og við vitum er nýting jarðvarma í mikilli sókn um allan heim. Íslenskir vísindamenn og verkfræðingar á mörgum svæðum leiða þá vinnu vegna sérþekkingar okkar á þessu málefni. Mannvirkin uppi á Hellisheiði eru vel úr garði gerð og skapa lífsgæði á höfuðborgarsvæðinu sem þessar þjóðir og þjóðarbrot á norðlægum slóðum þekkja ekki.

Þá verður mér hugsað til þess þegar við vorum í Whitehorse í Kanada á Yukon-svæðinu. Við vorum í þessum bæ sem telur um 15 þús. manns, hann er á stærð við Akureyri. Þar leggur ís í raun frá október og fram á vor og allt er kynnt með olíu og gasi. Við þær aðstæður gerir maður sér grein fyrir því hvað við höfum með skynsamlegri nýtingu orkuauðlinda okkar náð langt á þessum vettvangi, þegar maður ber sig saman við svæði sem eru að mörgu leyti sambærileg við það að búa á Íslandi. Það er því svolítið magnað að við skulum vera í þeim deilum sem raun ber vitni um þennan málaflokk. Á þessu svæði í Whitehorse í Kanada þurfti ekki að fara langt út fyrir bæinn til þess að finna heita hveri, heitar uppsprettur sem koma þar upp úr jörðinni. Ég veit að nú eru menn farnir að skoða það vegna heimsóknar sinnar í orkuver okkar hvað er hægt að gera á þessu svæði fyrir það fólk sem þar býr.

Síðasti fundur var í Strassborg um miðjan desember. Þann fund sótti hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir varaformaður. Hún lagði meðal annars áherslu á þá áskorun sem við stöndum frammi fyrir með þeim aukna ferðamannastraumi sem kemur inn á viðkvæm landsvæði í okkar fallega landi og þá áskorun sem fámenn sveitarfélög úti um land standa frammi fyrir að taka á móti þessum vaxandi ferðamannastraumi og sagði að það þyrfti að bregðast sérstaklega við og hlúa að náttúru okkar með sjálfbærni að leiðarljósi. Þar var einnig farið yfir þá merkilegu ráðstefnu sem hér er haldin árlega um framtíð norðurslóða, Arctic Circle, og haldin var í Reykjavík í Hörpu 16.–18. október og rúmlega 1.800 gestir frá yfir 50 þjóðlöndum sóttu.

Í þessari skýrslu er hlaupið á ýmsu varðandi þessi störf og sögu þingmannanefndarinnar, en ég hef farið yfir það helsta, virðulegur forseti.