145. löggjafarþing — 70. fundur,  1. feb. 2016.

framlög til barnabóta.

[15:17]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í Fréttatímanum um liðna helgi gat að líta úttekt á samanburði á velferðarkerfinu á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum. Sú greining var byggð á nýrri samanburðarskýrslu norrænu hagtölunefndarinnar um félagsleg málefni og byggir því á opinberum gögnum.

Það sem er athyglisvert þegar horft er yfir þessa úttekt, og í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu um samanburð heilbrigðiskerfisins á Íslandi við heilbrigðiskerfi í öðrum nágrannalöndum, er að sama hvar borið er niður á sviði félagslegrar velferðar, þjónustu við börn, aðbúnað eldri borgara, þá er himinn og haf á milli þess sem raunveruleikinn á Íslandi hljóðar upp á og þess sem fólk má vænta í grannlöndunum.

Eina sviðið þar sem við gerum þokkalega vel og jafnvel betur en önnur lönd er á sviði vaxtabóta en það kemur ekki til af góðu heldur er það til að niðurgreiða íslenska krónu og dugar samt ekki til því að húseigendur væru betur settir með norræna vexti án vaxtabóta en með íslenska vexti og vaxtabætur.

Það er sláandi að sjá samanburðinn þegar kemur að barnabótum og fæðingarorlofi. Það eru svo til aðeins börn einstæðra foreldra og hinna allra tekjulægstu sem njóta barnabóta hér á Íslandi eins og við þekkjum svo vel og munurinn er þannig að hann skiptir tugum milljarða. Það er sérstaklega athyglisvert að barnabætur með tveimur börnum fólks í sambúð eru 5.800 kr. á Íslandi en ættu að vera 35.000 kr. ef íslensk börn sætu við sama borð og á Norðurlöndunum.

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Er ekki ástæða til að endurskoða þá sveltistefnu sem ríkisstjórnin hefur tekið upp í barnabótakerfinu (Forseti hringir.) og gagnvart fæðingarorlofinu sérstaklega og endurskoða þær áherslur sem stjórnarmeirihlutinn sýndi hér við fjárlagagerðina að þrengja svið þessara bóta og taka þær almennt af fólki á meðaltekjum?