145. löggjafarþing — 70. fundur,  1. feb. 2016.

framlög til barnabóta.

[15:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er þannig með samanburðarskýrslur að þær gefa hver sína myndina. Nú hef ég ekki kynnt mér þessa tilteknu skýrslu sem hv. þingmaður vísar til en ég þekki aðrar skýrslur, ég þekki skýrslur frá OECD til dæmis af ráðstefnu sem ég sótti á síðasta ári sem kemur út undir enska heitinu How is life? þar sem kemur fram að almennt hafi Íslendingar það mjög gott í alþjóðlegum samanburði, t.d. hvað varðar aðgengi að heilbrigðisþjónustu, það þykir vera til fyrirmyndar á Íslandi og á það við um marga aðra þætti sem skipta daglegt líf fólks máli.

Hér er sérstaklega spurt um barnabætur. Það er kölluð sveltistefna, stefna sem ríkisstjórnin hefur fylgt um hækkun barnabóta. Við hækkuðum barnabætur verulega fyrir tveimur árum og færðum niður tekjuskalann með auknum tekjutengingum. Þannig tryggðum við að auknar bætur mundu betur nýtast þeim sem minna hafa milli handanna. Þeir sem eru í þeirri stöðu eru í betri málum, ef svo mætti að orði komast, í dag en gilti þegar hv. þingmaður var í ríkisstjórn.

Hér er því haldið fram að barnabætur hafi verið skertar um of. Þó er það svo að einstætt foreldri með tvö börn, annað undir sjö ára aldri, missir ekki að fullu rétt sinn til barnabóta fyrr en viðkomandi hefur náð einni milljón í tekjur. Það má svo sem velta fyrir sér hvort kerfi sem er þannig uppbyggt að jafnvel þeir sem hafa eina milljón í tekjur fái barnabætur, hvort skerðingar séu í slíku kerfi of miklar. Ég get tekið undir með hv. þingmanni um að við getum gert betur (Forseti hringir.) og eigum að gera það, fyrst og fremst með verðmætasköpun, en ég tel hins vegar ekki að við höfum verið með skerðingarhlutföll rangt stillt þegar þeir sem hafa jafn miklar ráðstöfunartekjur og ég hef hér rakið njóta enn barnabóta.