145. löggjafarþing — 70. fundur,  1. feb. 2016.

framlög til barnabóta.

[15:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Samfylkingin hefur fylgt þeirri stefnu að allir eigi að fá barnabætur óháð tekjum, hefur boðað þá stefnu. Á sama tíma segir Samfylkingin að það megi ekki og ætti ekki að lækka skatta á millitekjufólk. Ég er þeirrar skoðunar að bótakerfi eins og barnabótakerfið, svo að dæmi sé tekið, eigi fyrst og fremst að beinast að þeim sem eru í þörf fyrir auknar ráðstöfunartekjur. Að öðru leyti eigum við að stilla sköttum í hóf. Sú leið sem Samfylkingin boðar — sem er að hafa háa skatta, líka á þá sem eru með millitekjur og svo þriðja skattþrepið á þá sem eru með 700 þús. kr. og meira og nota síðan þá skatta til að dreifa aftur út eftir reglum sem menn telja hér í þessum sal að þeir geti fullkomnað og haft svo sanngjarnar að allir eigi að vera sáttir — er stefna sem ég fylgi ekki. Ég tel að bótakerfin eigi fyrst og fremst að gagnast þeim sem hafa ekki nægar ráðstöfunartekjur og við getum lyft undir með. Að öðru leyti eigum við að láta fólk í friði með lágum sköttum.