145. löggjafarþing — 70. fundur,  1. feb. 2016.

sala á hlut ríkisins í Landsbankanum.

[15:24]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að eiga hér orðastað við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um fyrirhugaða sölu á eignarhlut ríkisins í Landsbankanum, þ.e. ríflega 28% hlut í þeim banka.

Nú er það nokkurn veginn kunnugt öllum hv. þingmönnum sem hér eru að ég og hæstv. ráðherra deilum ekki endilega skoðun á því hvort æskilegt sé að selja hlut í Landsbankanum. Ég hef talað fyrir því að eðlilegt sé að við skoðum aðra hugsun inn í fjármálakerfið. Ég hefði til dæmis viljað sjá miklu lengra gengið í endurskipulagningu fjármálakerfisins og að lokið yrði við aðskilnað viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi á meðan við getum sagt að ríkið sé í þessari stöðu að halda utan um þá eignarhluti sem ríkið heldur utan um núna.

Ég hef líka tekið undir þær hugmyndir sem hv. þm. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Frosti Sigurjónsson, hefur varpað fram um Landsbankann sem samfélagsbanka. Hann hefur bent á það að arðgreiðslur úr bankanum séu meiri nú en kostnaður ríkisins af vaxtagjöldum og það sé að minnsta kosti ekki tímabært að selja hlutinn í bankanum.

En óháð öllum þessum ólíku skoðunum á því hvernig við viljum sjá fjármálakerfið byggjast upp langar mig í fyrsta lagi að spyrja hæstv. ráðherra, í ljósi þess sem bent hefur verið á af þeim sem fást við þessi mál og eru að skrifa um þessi mál, hvort hæstv. ráðherra — í ljósi þess að Bankasýslan hefur verið að kynna nýja skýrslu um mögulega sölu, þar sem kemur fram að í sjálfu sér sé engin pressa á að selja þennan hlut — telji það vænlegt til að fá sem hæst verð fyrir hlutinn í bankanum að búið sé að leggja þetta niður, búið að marka tímarammann í fjárlögum þessa árs. Ég spyr hins vegar hvort það sé ekki ólíklegt að á sama tíma og verið er að selja hlut í Arion banka sé líka verið að selja hlut ríkisins í Landsbankanum. Mun sú sala, sala á hlut ríkisins í Arion banka, ekki verða til þess að rýra verðgildi hlutarins, herra forseti?