145. löggjafarþing — 70. fundur,  1. feb. 2016.

útboð á tollkvótum.

[15:38]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni útboð á tollkvótum, og dóm sem féll nýlega sem gengur út á að ríkið endurgreiði hálfan milljarð til verslunarinnar eða innflutningsaðila. Þetta er kannski svolítið flókið mál, en það snýr að því að ráðherra hafi val um hvort hann beiti útboði eða hlutkesti. Dómstólar dæmdu að ráðherra hefði í raun of víðtækt skattlagningarvald. Lögunum var breytt síðastliðið vor allt að því í skjóli nætur, vil ég leyfa mér að segja. Útboðsleiðin var fest í sessi, gerð var breytingartillaga um það og málið fór í raun aldrei til umsagnar, þ.e. sá þáttur málsins fór aldrei í neitt umsagnarferli. Hér greiddu hæstv. ráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn, talsmenn viðskiptafrelsis, atkvæði með breytingunni. Hún gengur út á að það á að bjóða út tollkvóta, sem þýðir að það eru í rauninni neytendur sem borga á endanum brúsann, því að að sjálfsögðu fer þetta út í verðlagið.

Björt framtíð hefur flutt breytingartillögu þess efnis að hin leiðin verði farin, þ.e. að hlutkesti sé varpað. Það er engin einföld leið í þessu máli en það er betri leið vegna þess að markmiðið með tollkvótunum er auðvitað að flytja inn landbúnaðarafurðir þar sem enginn kostnaður er, sem kemur sér vel fyrir neytendur. Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna studdi hann breytingartillöguna þar sem útboðsleiðin var fest í sessi? Styður hann þá ekki tillögu Bjartrar framtíðar sem snýr að því að varpa hlutkesti þannig að neytendur njóti?