145. löggjafarþing — 70. fundur,  1. feb. 2016.

útboð á tollkvótum.

[15:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, þetta eru ekki alveg einföld mál. Hér er um að ræða málaflokk sem reyndar heyrir undir landbúnaðarráðherrann. Í þessu tilvitnaða dómsmáli var það úrslitaatriði að lagaheimild skorti til að fela ráðherranum vald til að velja milli þessara tveggja valkosta. Ég hygg að frumvarpið sem vísað var til og seinna varð að lögum hafi komið fram einmitt eftir að bent hafði verið á að framsal valds til ráðherrans til að ákveða þessi mál stæði á tæpum lagagrunni. Það er þá meginskýringin á því að sú leið var valin.

Það á eftir að koma betur í ljós hversu víðtæk áhrif þessi niðurstaða hefur varðandi mögulegar endurgreiðslur á því tímabili sem lögin stóðu með þessum hætti, hversu miklar endurgreiðslur munu þurfa að eiga sér stað til þeirra sem greiddu fyrir eftir uppboðsaðferðinni, en það er á endanum álitamál hvora leiðina menn vilja fara. Maður skyldi þó ætla að að minnsta kosti þar sem skilvirkur markaður er til staðar mundi myndast verð á þessum tollkvótum sem endurspeglaði það verð sem neytendur væru tilbúnir að greiða fyrir viðkomandi vöru. Það er síðan aftur samningamál hverju sinni fyrir stjórnvöld í samningum við önnur ríki að ákveða magnið og að hve miklu leyti við brjótum okkur leið inn á aðra markaði með því að (Forseti hringir.) opna dyrnar fyrir landbúnaðarafurðir inn til Íslands.